Mikilvæg 3 stig hjá Ægi í dag

IMG_20150808_162721Ægismenn gerðu góða ferð norður á Dalvík í dag þegar liðið vann Dalvík/Reyni í 2. deildinni í knattspyrnu. Fyrir leikinn var Ægir í fallsæti og því var nauðsynlegt fyrir okkar menn að ná sigri sem og þeir gerðu en leikurinn endaði 0-3 fyrir Ægi.

Fyrsta mark Ægis kom á 22. mínútu leiksins en það var Milan Djurovic sem kom boltanum í netið. Það var síðan Þorkell Þráinsson sem bætti við öðru marki Ægis rétt fyrir hálfleik á 45. mínútu. Staðan því mjög vænleg þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Ægismenn gerðu síðan út um leikinn á 62. mínútu þegar Andri Sigurðsson skoraði þriðja mark liðsins. Öruggur 0-3 sigur Ægis því staðreynd og mjög mikilvægur í baráttunni um að halda sæti sínu í 2. deild.

Eftir leikinn er Ægir í 8. sæti deildarinnar en Sindri sem á leik til góða er einu stigi fyrir aftan Ægi í 9. sætinu. Ægismen eiga tvo leiki eftir í mótinu. Þann fyrri gegn toppliði Leiknis eftir viku og síðasti leikur tímabilsins er heimaleikur gegn Njarðvík.

Það verður því mikil spenna í fallbaráttuslagnum það sem eftir er af deildinni en stöðuna má sjá með því að ýta á myndina hér að neðan.

Staðan