Svavar Knútur í Þorlákskirkju á föstudaginn

Mynd: Facebook/ Zippo Zimmermann
Mynd: Facebook/ Zippo Zimmermann

Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur mun halda tónleika í Þorlákskirkju á föstudaginn, 9. október. Tónleikarnir eru hluti af stuttri tónleikaröð í tilefni af útgáfu fjórðu sólóplötu hans.

Platan ber nafnið Brot og hefur titillag plötunnar trónað í efstu sætum vinsældarlista Rásar 2 síðustu vikur. Á plötunni er að finna tíu lög, bæði á íslensku og ensku. Umfjöllunarefnið er gleði, sorgir og hin hversdagslegu ævintýri lífsins, heimspeki og önnur hjartans mál lituð með einstökum litum söngvaskáldsins.

Platan kemur út á geisladisk og vínyl en ennfremur verður hún gefin út sem lítill konfektkassi, þar sem niðurhalskóðar og bæklingur fylgja með. Það er líklega í fyrsta skipti sem plata er gefin út sem súkkulaði og segir Svavar Knútur það vera viðleitni til þess að bregðast við minnkandi geisaldiskasölu á skapandi hátt. Það er einmitt dóttir Svavars Knúts hefur alla tíð teiknað og/eða málað plötuumslögin hans og mun eitt þeirra listaverka prýða þessa súkkulaðiútgáfu.

Á tónleikunum mun Svavar flytja nokkur af sínum uppáhalds lögum ásamt nýju plötunni Brot í heild sinni. Fyrir áhugasama þá er hægt að hlusta á nýju plötuna með því að smella hér.

Það má því reikna með stórgóðum tónleikum í Þorlákskirkju á föstudaginn. Tónleikarnir hefjast klukkan 21 og er aðgangseyrir 2.000 kr.