Hafnarframkvæmdir ganga vonum framar

hofnin03Á þessu ári hafa miklar framkvæmdir verið í Þorlákshöfn. Framkvæmdirnar hafa gengið vonum framar og gæti kostnaður við þessar þær orðið mun minni en gert var ráð fyrir. „Við gætum sparað hálfan milljarð króna miðað við kostnaðaráætlun, verkið gengur miklu betur en áætlað var“, sagði Hjörtur Bergmann Jónsson hafnarstjóri í Þorlákshöfn í viðtali við Ruv.is.

Ástæðan fyrir því að framkvæmdirnar hafa gengið svona vel er að mun minna er af bergi í höfninni og meira er af lausu efni en menn héldu. Líkur eru á því að það þurfi einungis að sprengja gömlu Norðurvararbryggjuna.

Áætlað var að kostnaður við framkvæmdirnar árið 2015 og 2016 yrði um 900 m.kr. en eins og áður sagði þá eru menn vongóðir um að sá kostnaður verði mun lægri. Í heild var gert ráð fyrir að kostnaður við viðhald og breytingar á höfninni yrði um 2 ma.kr. en hafnarsjóður greiðir 40% af þeirri upphæð og ríkissjóður 60%.

Hjörtur er bjartsýnn á að þessar breytingar muni auka möguleika Þorlákshafnar og skapa ný tækifæri. „Héðan er fluttur út vikur og hér er skipað upp salti, áburði og innfluttum varningi. Þorlákshöfn liggur vel við siglingum til og frá Evrópu, það er 10 tímum skemmri sigling til Evrópu en frá höfnum við innanverðan Faxaflóa. Endurbætt höfn gæti líka opnað á viðkomu skemmtiferðaskipa og jafnvel ferjusiglinga“, sagði Hjörtur hafnarstjóri í viðtali við Rúv.is.

Fréttina í heild má finna á vef ruv.is.