Daníel Haukur ákvað að gefa ekki kost á sér sem varaformaður

daniel_haukur01Okkar maður, hann Daníel Haukur, gaf það út í gær að hann myndi ekki gefa kosta á sér í embætti varaformanns Vinstri grænna en margir áhrifamenn innan flokksins sem og unglingahreyfingin voru búin að skora á hann að bjóða sig fram.

Landsfundur flokksins fer fram núna um helgina á Selfossi og gerðu margir ráð fyrir því að Daníel myndi bjóða sig fram gegn Birni Vali sem er sitjandi varaformaður flokksins. Björn Valur gaf það út á fimmtudaginn í samtali við Hringbraut að hann myndi að öllum líkindum ekki bjóða sig oftar fram innan Vinstri grænna ef hann fengi ekki kosningu í embættið.

Það er ljóst að Þorlákshafnardrengurinn Daníel Haukur er eftirsóttur innan Vinstri grænna en 74 einstaklingar og þar á meðal áhrifamenn og leiðtogar innan flokksins settu nöfn sín á stuðninsmannalista þar sem hann er hvattur til að bjóða sig fram sem varaformaður flokksins.

Að sögn einstaklinga innan Vinstri Grænna er Daníel Haukur „rísandi stjarna“ innan flokksins en þetta kemur fram í umfjöllun Hringbrautar um málið. Það verður því gaman að fylgjast með okkar manni á næstu árum.

Í viðtali sem Eyjan tók við Daníel Hauk kom fram að hann vildi þakka kærlega fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið seinustu daga. Hann hefði ekki búist við svona miklum stuðningi en hann teldi hins vega best fyrir heildarhagsmuni flokksins á þessari stundu að gefa ekki kost á sér.