Beggubakstur: Hvít súkkulaðimús í súkkulaðiskálum

beggubakstur_hausGóður eftirréttur er bráðnauðsynlegur á mínu heimili þegar eldaður er góður matur á laugardagskvöldi. Hvíta súkkulaðimúsin er fersk og létt og er því tilvalin sem eftirréttur þegar búið er að belgja sig út af góðum mat. Gott er að bera hana fram með jarðaberjum eða hindberjum. Ekki er verra að geta borðað „skálina“ líka.


hvítsúkkulaðimús2Hvít súkkulaðimús (fyrir 6-8)
:

250 g hvítt súkkulaði
2 egg
500 ml rjómi
1 msk sykur
1 tsk vanilludropar
50 g suðusúkkulaði

Fyrst þarf að þeyta rjómann í skál. Hvíta súkkulaðið er brætt í vatnsbaði eða í örbylgju. Því næst eru eggin þeytt í aðra skál. Eggjunum, hvíta súkkulaðinu, sykrinum og vanillu-dropunum er blandað vel saman. Að lokum er súkkulaðiblöndunni blandað varlega saman við rjómann. Músin er sett í skálar eða glös og rifið suðusúkkulaði stráð ofan á. Hvít súkkulaðimúsin þarf að standa í ísskáp í a.m.k. 4 klukkustundir. Best er að geyma hana í ísskáp yfir nótt.

hvítsúkkulaðimúsSúkkulaðiskálar (fyrir 6-8):

400 g suðusúkkulaði
Palmín
Blöðrur (best að nota vatnsblöðrur)
Blöðrurnar eru smurðar örlítið með palmínfeiti áður en þeim er dýft í brætt suðusúkkulaði. Athuga þarf hvort að súkkulaðið sé nokkuð of heitt (ef það er hægt að dýfa puttanum í það þá er það tilbúið). Geyma þarf blöðrurnar með súkkulaðinu á í kæli þar til það hefur storknað vel. Að lokum eru þær teknar úr ísskápnum og blöðrurnar fjarlægðar með þvi að sprengja þær með nál.

Njótið!
Berglind Eva Markúsdóttir

Við viljum svo benda áhugasömum á heimasíðu Berglindar Evu sem ber heitið Beggubakstur.