Skemmtilegasti bakstursmánuðurinn er að ganga í garð. Ég tók smá forskot á sæluna og skellti í piparköku jólakúlur. Gaman er að leika sér með að skreyta kúlurnar með ljósu, dökku eða hvítu súkkulaði og strá alls konar skrauti yfir.
Jólakúlur (u.þ.b. 56 stk):
- 360 g piparkökur
- 2 dl flórsykur
- 200 g rjómaostur
Piparkökurnar eru settar í matvinnsluvél og muldar þar til blandan verður að „sandi“. Piparkökublandan er síðan sett í skál ásamt rjómaostinum og flórsykrinum og blandað vel saman þar til blandan verður að deigi.
Næst eru mótaðar litlar kúlur úr blöndunni og þær settar á bökunarpappír. Kúlurnar eru geymdar í ísskáp í u.þ.b. 20-30 mín. Súkkulaðið er svo loks brætt í örbylgju eða í vatnsbaði og stungið nál í kúlurnar og þær vel súkkulaðihúðaðar. Að lokum eru þær skreyttar með einhvers konar kökuskrauti eða súkkulaði. Jólakúlurnar þurfa að vera í kæli þar til súkkulaðið er orðið hart og þá eru þær tilbúnar.
Njótið! 🙂
Berglind Eva Markúsdóttir
Við viljum svo benda áhugasömum á heimasíðu Berglindar Evu sem ber heitið Beggubakstur.