„Eins og Landeyjahöfn er í dag þá mun hún aldrei þjóna sínu hlutverki nema sem sumarhöfn,“ segir Ólafur Ragnarsson skipstjóri, í samtali við Morgunblaðið í gær.
„Þó að ný ferja verði smíðuð verða frátafir ekkert minni en í dag. Kostnaður við dýpkun mun minnka óverulega þrátt fyrir nýja ferju, hún er engin lausn,“ segir Ólafur ennfremur en hann var meðal þeirra skipstjórnarmanna sem áttu fund í innanríkisráðuneytinu síðastliðinn fimmtudag um Landeyjahöfn.
Ólafur segir hópinn hafa lagt áherslu á að fenginn yrði óháður aðili til að meta stöðuna í Landeyjahöfn og í kjölfarið yrði framhaldið með höfnina ákveðið. Hann segir að stjórnvöld verði að gera upp við sig hvort forsvaranlegt sé að eyða meiri fjármunum í óbreytta höfn.
Hafnarfréttir greindu frá því í byrjun árs að Herjólfur sigldi 189 daga til Þorlákshafnar árið 2015 og fór hann 345 ferðir á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar.