Ályktun frá ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði

umfi ungt fólk og lýðræðiUngmennaráðstefna UMFÍ, Ungt fólk og lýðræði, haldin á Selfossi dagana 16. – 18. mars 2016, skorar á stjórnvöld, jafnt ríki sem sveitarfélög, að leita meira til ungmenna og taka tillit til þeirra skoðana á málefnum samfélagsins, einkum en ekki eingöngu þeim er varða ungmennin sjálf. Yfirheiti ráðstefnunnar var Niður með grímuna, geðheilbrigði ungmenna og fjallaði hún um stöðu geðheilbrigðismála barna og ungmenna á Íslandi í dag.

Þátttakendur ráðstefnunnar voru fulltrúar ungs fólks í sínum samfélögum og þekkja vel til aðstæðna ungmenna á sínu heimasvæði auk þess að vera það sem mætti kalla sérfræðingar í málefnum ungmenna, verandi ungmenni sjálf. Biðtími eftir sér- og ítarþjónustu geðheilbrigðiskerfisins getur verið allt að 18 mánuðir.

Við lok síðasta árs voru 718 börn og ungmenni á biðlistum eftir þessháttar þjónustu, en það eru þeir sem þegar höfðu sótt grunnþjónustu en ekki fengið. Á grunnþjónustustigi geðheilbrigðiskerfisins er löng bið veruleiki sem bitnar á mjög stórum hópi barna og ungmenna. Heildarbiðtími barna og ungmenna eftir þjónustu getur því orðið allt að þrjú til fjögur ár. Það er fullkomlega óásættanlegt.

umfi ungt fólk og lýðræði3Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að þessir löngu biðlistar ganga ekki einungis gegn lögbundnum skyldum ríkisins heldur stofna þeir velferð borgara í hættu. Það teljum við algjörlega óviðunandi og krefjumst þess að stjórnvöld átti sig á mikilvægi þessa málaflokks, ekki bara í orði heldur verki, strax í dag.

Tilgangur Ríkisendurskoðunar er að hafa eftirlit með störfum stjórnvalda og benda á það sem betur má fara innan kerfisins. Sé ekki tekið mark á ábendingum stofnunarinnar, má draga í efa vilja stjórnvalda til þess að gera betur. Vandamál geðheilbrigðiskerfisins eru þó ekki ný af nálinni. Þau hafa verið þekkt í fjölda ára og okkur þykir ljóst að miðað við stöðu þess í dag að þá eru börn og ungmenni ekki í forgangi og hafa ekki verið svo áratugum skiptir.

Á sama tíma og hamrað er á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar þá er verið að skera niður fjárveitingar hjá borg og sveitafélögum til þeirra stofnana sem sinnir þessari þjónustu. Það kemur verst niður á börnum og ungmennum og kemur til með að kosta samfélagið margfalt meira en sparað er til framtíðar. Stjórnvöld gætu allt eins tekið lán á stökkbreyttum ofurvöxtum.

umfi ungt fólk og lýðræði2Við viljum leggja áherslu á mikilvægi þess að bæta og auka fjármála-, kynja- og lýðræðisfræðslu á öllum skólastigum til þess að undirbúa börn og ungmenni fyrir virka lýðræðisumræðu í samfélaginu. Ungt fólk hefur mikinn áhuga á málefnum líðandi stunda, bæði þeim málefnum sem að þeim snúa sérstaklega en ekki síður öllum öðrum málefnum samfélagsins. Það er mikill vilji meðal ungmenna að taka virkan þátt í lýðræðinu en við upplifum fordóma vegna aldurs og meints reynsluleysis. Við viljum benda á að reynsla einstaklinga er mjög fjölbreytt og að ungt fólk býr margt yfir reynslu og upplifunum sem þeir sem eldri eru þekkja ekki.

Okkur er stórlega misboðið yfir áhugaleysi stjórnmálamanna til þess að höfða til ungmenna og minnum á það að ungmenni á aldrinum 16 – 30 ára eru 76.000 manns á Íslandi í dag. Fjórði hver Íslendingur er ungmenni en það endurspeglast hinsvegar ekki á alþingi, æðsta stjórnvaldi á Íslandi. Til þess að styrkja stöðu ungmenna í lýðræðinu kemur lækkun kosningaaldurs í 16 ár sterklega til greina.

Ungt fólk er ekki bara framtíðin, við erum til núna og höfum áhrif í dag. Biðtími eftir þjónustu í geðheilbrigðismálum barna og unglinga hefur náð hættustigi. Í dag eru hundruðir barna og ungmenna sem hljóta skaða af þeim langa biðtíma sem úrræðaleysi stjórnvalda árum saman hefur valdið. Ef stjórnvöld eru ekki tilbúin til þess að setja málefni barna og ungmenna í forgang strax, þá mun það halda áfram að valda óafturkræfum skaða fyrir samfélagið allt.

Fyrir hönd ráðstefnugesta, Ungmennaráð UMFÍ.