Haukar jöfnuðu metin

thor_haukar01Haukar jöfnuðu metin í 8-liða úrslitarimmunni gegn Þórsurum í Icelandic Glacial höllinni í kvöld. Lokatölur voru 65-76 Haukum í vil og staðan því 1-1.

Gestirnir úr Hafnarfirði byrjuðu leikinn mun betur en boltinn vildi bara ekki í körfuna hjá Þórsurum og staðan 12-19 eftir fyrsta leikhluta. Algjör viðsnúningur varð á leik Þórs í öðrum leikhluta og skoruðu þeir helmingi fleiri stig í honum en í þeim fyrsta. Staðan 35-33 fyrir Þór í hálfleik.

Haukarnir voru síðan mun öflugri í síðari hálfleik og voru sóknir Þórs einsleitar og lítið flæði í gangi. Eins og fyrr segir kláruðu Haukarnir leikinn 65-76 og því allt í járnum í þessari rimmu liðanna.

Vítanýting Þórsara var ekki uppá marga fiska í þessum leik eða 59% á móti 86% vítanýtingu hjá Haukum. Í svona stórum leikjum skipta vítin mjög miklu máli en Haukar settu niður 26 víti á móti 13 vítum hjá Þór.

Þriðji leikur liðanna fer fram á fimmtudaginn á Ásvöllum kl. 19:15 og má fastlega gera ráð fyrir fjölmenni úr Þorlákshöfn í stúkunni.