Forréttindin að búa í „naflanum“

vitinnFyrir hartnær tólf árum skruppum við Viggó, eiginmaður minn, á sólríkum vordegi með drengina okkar tvo í bíltúr austur fyrir fjall. Við bjuggum á þeim tíma í vesturbæ Reykjavíkur þar sem ég var í rólegheitum að leita að nýrri vinnu. Nokkrum dögum áður hafði ég séð draumastarfið auglýst í Morgunblaðinu. Starfslýsing menningarfulltrúa Ölfuss var eins og klæðskerasniðin fyrir mig, enda fólst starfið í því að sinna öllu því sem mér finnst skemmtilegast að vinna að.

Ég átti óljósar minningar um Þorlákshöfn frá því ég var krakki og við fjölskyldan fórum í heimsókn til Ingimundar frænda í Þorlákshöfn. Yfirleitt var farið í rigningu og roki til að hafa ofan af fyrir okkur krökkunum og minningarnar svolítið í samræmi við það. Þess vegna var ég undrandi þegar við, á þessum fallega vordegi, komum í þorpið við sjóinn. Ekki mundi ég eftir öllum gróðrinum eða grasflötunum og við áttum ekki orð yfir hvað allt var snyrtilegt auk þess sem strákarnir voru stórhrifnir af leiksvæðunum.

Mamman fékk samþykki fjölskyldunnar til að sækja um vinnuna og það var mikil gleði þegar mér bauðst starfið og við sáum fram á að flytja. Síðan þá eru liðin tólf ár, þau bestu sem þessi fjölskylda hefur átt því það er hvergi betra að búa en í Þorlákshöfn. Bærinn hefur alla þá kosti sem ein fjölskylda getur óskað eftir og gott betur því ég fer ekki ofan af því að leik- og grunnskólinn hér í bæ séu þeir bestu á landinu.

Í Ölfusi býr fólk sem er jákvætt, tilbúið að taka þátt í allskyns veseni og nýjungum, hjálpsamt með eindæmum og harðduglegt. Það var ekki einfalt að búa fjarri stórfjölskyldunni og vinna krefjandi starf þar sem vinnutíminn einskorðaðist ekki við dagvinnu. Það var ómetanlegt hve íbúar tóku okkur opnum örmum, við eignuðumst fljótt vini sem voru tilbúnir að aðstoða okkur og líta til með drengjunum þegar foreldrarnir voru uppteknir.

Það hafa verið forréttindi að hafa fengið að vinna fyrir íbúa Ölfuss og ef Þorlákshöfn er ekki bær fyrir börn, þá er það enginn. Nálægðin við náttúruna, leiksvæðin, samstarfs skóla og tónlistarskóla og öflugt íþrótta- og tómstundastarf gerir að verkum að hér eiga allir þess kost að njóta sín og eflast. Ekki er ég viss um að hann Sölvi, sonur okkar hefði farið að æfa dans ef danskennslan með frábærum danskennara hefði ekki verið til staðar í skólanum, en sú undirstaða leiddi til þess að hann fékk hlutverk í leiksýningunni Billy Elliot í Borgarleikhúsinu. Ekki er ég heldur viss um að Baldur, frumburðurinn, hefði látið sér detta í hug að spila popplög á fiðlu í Ísland got Talent þáttunum, nema vegna þeirra fyrirmynda sem hér eru að finna. Starfsemi Lúðrasveitarinnar og Leikfélagsins og gott starf á sviði leiklistar í skólanum hefur mjög jákvæð áhrif á allt samfélagið. Hér eru börnin markvisst hvött til þátttöku í íþróttum eða skapandi starfi og allir fá að njóta sín, hver á sinn hátt, hvort sem það er í íþróttum eða á sviði og er ég þá að hugsa til árlegra leiksýninga tíunda bekkjar og þess þrekvirkis sem Ester og Gestur hafa í gegnum tíðina unnið með því að setja upp metnaðarfulla söngleiki í samstarfi við „Tóna við hafið“. Allt þetta telur og þar skiptir fólkið sjálft mestu máli, en nóg er af flottu fólki hér í Ölfusinu.

Nú er staðan hinsvegar sú hjá okkar litlu fjölskyldu að elstu drengirnir eru meira eða minna í Reykjavík og síðustu tvo vetur höfum við alla jafnan verið að skutla í bæinn sex daga vikunnar og þurft að hafa nokkuð fyrir því að skipuleggja samverustundir þar sem allir eru heima (það tekst stundum einu sinni í viku). Ekki sér fyrir endann á þessu og því höfum við ákveðið að gera það fyrir þessa blessuðu drengi okkar og fyrir sálarheill foreldranna, að flytja á höfuðborgarsvæðið. Ég hef sagt starfi mínu lausu frá og með 1. júlí og veit að þó ég telji mig hafa gert marga góða hluti fyrir þetta samfélag, þá er mjög gott að fá nýjan aðila í starfið sem sér hlutina og verkefnin frá öðru sjónarhorni og kemur með aðra áherslupunkta.

Þetta var erfið ákvörðun því við vitum alveg hvers við munum fara á mis við. Hitt er alveg ljóst að við komum til með að verma bekki á hliðarlínunni með dyggum hópi aðdáenda Ölfuss sem hafa reynst ómetanlegir oft á tíðum. Þar eru brottfluttir sem eiga frábærar minningar um búsetu hér og eru alltaf reiðubúnir að tala vel um „naflann“ eins og ónefndur gleðigjafi þessa bæjar nefnir Þorlákshöfn gjarnan.

Takk Ölfusingar, fyrir samleið síðustu ára,
Barbara Helga Guðnadóttir, menningar- og markaðsfulltrúi Ölfuss