Aflafréttir: humarveiði hafin

Jón á Hofi á leið í Þorlákshöfn. Mynd: Rammi.is
Jón á Hofi á leið í Þorlákshöfn. Mynd: Rammi.is

Í Þorlákshöfn var landað alls 2.880 tonnum (óslægt) í mars á þessu ári skv. bráðabirgðatölum frá Fiskistofu. Er það örlítið meira magn en var landað í mars árið 2015 en þá var landað alls 2.791 tonnum í höfninni.

Veiði hefur verið ágæt og voru nokkrir bátar frá Þorlákshöfn með þeim aflahæstu á landinu í mars. Hásteinn ÁR-8 var annar aflahæsti dragnótabáturinn í mars með heildarafla upp á 318,9 tonn. Arnar ÁR-55 var fjórði aflahæsti báturinn í þessum flokki, líkt og í febrúar, með heildarafla upp á 200,3 tonn. Jóhanna ÁR-206 var svo sjötti aflahæsti báturinn í þessum flokki með um 178,4 tonn.

Fróði ÁR-38 var aflahæsti humarbátur landsins í mars með 21,2 tonn og þar af var humar 2,8 tonn. Taka verður þó fram að Fróði er fyrsti báturinn til að hefja veiðar á humri og var engin annar bátur byrjaður í mars. Fróði var einnig fyrstur báta til að hefja veiðar á humri árið 2015 og voru þeir einnig lengst allra báta á humri á því ári eða fram til jóla. Það má því segja að Fróði ÁR-38 sé aðal humarbátur Íslands.

 

Leiðrétting kl. 17:00:
Ekki er rétt það sem kemur fram í fréttinni að Fróði ÁR-38 hafi byrjað fyrstur á humri í ár heldur var það Jón á Hófi. Í mars var Jón á Hofi kominn með 6,8 tonn m.v. humarhala en heildaraflinn á humar- og fiskitrolli hjá honum í mars voru 192,7 tonn. Fróði var með 157,5 tonn í heildina í mars og þar af var tæpt tonn af humri m.v. hala.

Biðjumst við afsökunar á þessum mistökum en upplýsingarnar fengum við á vefsíðunni www.aflafrettir.is.