Ægismenn lutu í lægra haldi í gærkvöldi

Ægir2016Ægismenn mættu Njarðvíkingum í Njarðvík í gær í bongóblíðu. Leikurinn fór ekki rétt af stað fyrir okkar menn þar sem Njarðvíkingum tókst að skora eftir 20 sekúndur en það var Arnór Svansson sem gerði það mark fyrir heimamenn.

3 mínútum seinna eða á 4. mínútu leiksins skoraði Jannik Christian Eckenrode fyrir Ægismenn og jafnaði leikinn strax.

Leikurinn var jafn og áttu bæði lið mikið af hálffærum í fyrri hálfleik en náðu ekki að skapa sér hættuleg færi. Annað var uppá teningnum í seinni hálfleik en á 47. mínútu spiluðu Njarðvíkingar sig í gegnum vörn Ægismanna og lagði Stefán Birgir Jóhannesson boltann auðveldlega framhjá Marteini Erni, sofandaháttur á varnarleiknum.

Eftir þetta voru Njarðvíkingar töluvert líklegri en áttu Ægismenn nokkur færi sem hefðu átt að vera nýtt betur. Njarðvíkingar héldu áfram að sækja grimmt og átti Marteinn Örn 3 stórkostlegar vörslur á stuttum tíma og var að halda okkar mönnum á floti í þessum leik.

Það var svo á 78. mínútu að heimamenn fengu aukaspyrnu fyrir utan teig, henni var spyrnt inní teig og var þar Styrmir Gauti Fjeldsted ákveðnastur og skallaði boltann inn af stuttu færi.

Það var loks á 90.mínútu að Harrison Hanley rak smiðshöggið á þennan leik þegar hann komst einn í gegn eftir hrikaleg mistök í varnarlínu Ægismanna og vippaði honum þægilega yfir Martein Örn sem gat ekkert við því gert. 4-1 tap því staðreynd.

Einar Ottó Antonsson þjálfari spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið í kvöld og því ber að fagna. Einnig spiluðu Magnús Pétur Bjarnason og Eiríkur Ari Eiríksson sinn fyrsta deildarleik fyrir Ægi.

Fall er fararheill. Áfram Ægir!
Axel Örn Sæmundsson