Heilsa og vellíðan: Að standa með sjálfum sér

heilsa_og_vellidanÞað er ekki svo langt síðan að ég hagaði mér eins og ég hélt að allir aðrir vildu að ég gerði. Það var sama hvort það snerist um það í hvaða fötum ég klæddist, hvernig ég talaði, hvernig ég vann vinnuna mína eða hvað ég myndi gera í frítíma mínum. Allar þessar ákvarðanir lagði ég meira og minna í hendurnar á öðrum. Ég spurði sjálfa mig aldrei að því hvað ég vildi enda hafði ég sennilega enga hugmynd um hvað ég vildi þar sem ég var eins langt frá því að vera ég sjálf og hægt er.

Hin frábæra gólftuska

Fólkið sem var í lífi mínu á þessum tíma fékk aldrei að heyra svarið nei frá mér og ég var ekkert nema almennilegheitin og góðmennskan uppmáluð. Ég var til þjónustu reiðubúin 24/7 og gott betur en það. Það var sama hvort það var í vinnunni, í skólanum eða með vinunum, mér fannst ég ekki fá þá virðingu og framkomu til baka sem mér fannst ég sýna öðrum. Ég lái þeim það ekki neitt í dag enda var ég hin frábæra gólftuska á þessum tíma.

Hvað vil ÉG gera og hvað lætur MÉR líða vel?

Það varð ekki fyrr en ég fór að vinna í sjálfri mér og lærði að elska mig að ég fór að standa með sjálfri mér. Ég fór að taka ákvarðanir út frá því hvað ég vildi gera og hvað myndi láta mér líða vel. Ég setti sjálfa mig algjörlega í fyrsta sætið og fór að standa með mér á öllum sviðum. Hvort sem það var í vinnunni eða í kringum fjölskyldu og vini.

Ég áttaði mig á því að ég sjálf set leikreglurnar fyrir aðra og hvernig þeir koma fram við mig. Einnig áttaði ég mig á því að maður þarf ekki alltaf að segja já við öllu, maður má líka segja nei án þess að þurfa að gefa ástæðu fyrir því. Það var alls ekki auðvelt fyrst þegar ég fór úr því að segja alltaf já við öllu og fara að segja nei þegar að mig langaði til þess. En því oftar sem ég gerði það því betur leið mér með sjálfa mig. Sjálfstraustið jókst, ég varð öruggari með mig og miklu sterkari andlega. Með tímanum varð mér sama hver viðbrögð fólks yrðu þegar ég stæði með sjálfri mér, aðalatriðið var að standa með mér og í hvert sinn sem ég gerði það leið mér eins og sigurvegara.

Mynd: Heilsa og vellíðan
Mynd: Heilsa og vellíðan

Hvar ert þú stödd/staddur?

Allir sem koma inn í líf okkar eru hérna til að kenna okkur eitthvað ákveðið, þarna var t.d. fólk í lífi mínu sem var að kenna mér að standa með sjálfri mér (meira um kennarana okkar hér). Það sem gerðist síðan þegar að ég fór að standa með sjálfri mér og segja það sem ég vildi en ekki það sem aðrir vildu heyra, þá fóru þeir sem gátu áður stýrt mér hægt og rólega úr lífi mínu. Þeir sem ekki fóru úr lífi mínu fóru að koma allt öðruvísi fram við mig.

Það sem er svo dýrmætt og mikilvægt að skilja er að lífið þitt snýst um þig og engan annan. Þeir sem koma inn í líf þitt eru allir komnir til að hjálpa þér að sjá hvar þú ert stödd/staddur gagnvart sjálf-um/ri þér. Það getur verið að sýna þér hvað þér finnst um þig eða þá að það er verið að sýna þér hver þú átt að vera og hver tilgangurinn þinn er. Ef þú ert óörugg/ur með sjálfa/n þig, stendur ekki með þér, finnst þú jafnvel vera lítils virði þá færð þú aðstæður í líf þitt sem sýnir þér nákvæmlega það og hjálpar þér að vera áfram þar. Það er því mjög auðvelt að sjá útfrá aðstæðum og fólki í lífinu þínu hvað það er sem þú þarft að vinna með hjá sjálf-ri/um þér.

Hvernig kemur þú fram við þig og hvað finnst þér þú eiga skilið?

Það sem við erum stöðugt að senda frá okkur í formi hugsana, hegðunar, ímyndunar, tals, skrifa o.s.frv fáum við að upplifa í raunveruleikanum. Við löðum að okkur fólk og aðstæður út frá því hvað við erum að senda frá okkur yfir daginn. Þú laðar t.d. fólk inn í líf þitt út frá því hvernig þú talar um þig, hegðar þér og út frá því það sem þér finnst þú eiga skilið. Ef ég sýni ekki sjálfri mér virðingu og ást þá gerir það enginn annar. Ef manni skortir sjálfstraust og er hræddur við viðbrögð annarra þá laðar þú að þér aðstæður í líf þitt sem að sýnir þér það.

Þú laðar aðstæður inn í líf þitt sem eru á svipaðri bylgjulengd og þú. Það þýðir ekki að lifa í reiði, biturleika og sjálfsvorkunn, sem er allt á mjög lágri bylgjulengd, og skilja síðan ekkert í því afhverju enginn sýnir þér ást og virðingu, sem er á miklu hærri bylgjulengd. Þú verður að byrja á því að sýna þér ást og virðingu til þess að aðrir geri það. Boltinn er alltaf hjá þér, þú berð ábyrgð á þinni líðan.

Einn mikilvægasti lærdómurinn í lífinu

Eitt af því mikilvægasta sem ég hef lært í lífinu er að læra að standa með sjálfri mér. Það fylgir því bæði mikið frelsi og maður kynnist sjálfum sér einnig miklu betur en áður því maður er stöðugt að setja sjálfa/n sig í 1. sætið og hugsa hvað maður vill. Að hugsa á hverjum degi í hvaða ákvörðun sem ég stend frammi fyrir hvað sé mér fyrir bestu og hvað lætur mér líða best er ekkert annað en að sýna sjálfri mér endalausa ást og virðingu. Það ber enginn hag þinn fyrir brjósti annar en þú og það ert þú sem leggur grunnin að því hvernig aðrir koma fram við þig útfrá því hvernig þú hugsar um þig. Því meira sem þú bæði elskar þig og virðir, því fleiri aðstæður í líf þitt færð þú til að sýna þér það.

Ást og friður,
Anna Guðný
Heilsa og vellíðan