Raggi Nat á æfingar hjá Dallas: „Slatti af stressi en spennan er að taka yfir“

thor_kr_bikarurslit2016-26Ragnar Nathanaelsson er á leiðinni til Bandaríkjanna á morgun þar sem honum hefur verið boðið á æfingar hjá NBA liðinu Dallas Mavericks í næstu viku.

Eini Íslendingurinn sem leikið hefur í NBA-deildinni, Pétur Guðmundsson, vakti athygli Dallas á Ragnari. „Pétur á allan heiður af þessu og er ég honum virkilega þakklátur,“ segir Ragnar í stuttu spjalli við Hafnarfréttir.

Ragnar mun fyrstu vikuna vera hjá Pétri sem búsettur er í Seattle. „Ég fer út á morgun til Péturs á æfingar til að undirbúa mig betur fyrir æfingarnar hjá Dallas.“

„Það fer bara eftir því hvort þeir vilja sjá meira af mér hvað ég verð lengi í Bandaríkjunum,“ segir Ragnar aðspurður hve lengi dvöl hans verður.

Að lokum spyr blaðamaður hvort það væri ekki smá stressandi að fara á æfingar hjá einu sigursælasta NBA liði sögunnar. „Jú, slatti af stressi en spennan er að taka yfir.“