Aldursviðmið í leikskólum: 12, 18, eða 24 mánaða?

bergheimar01Töluverð umræða hefur verið í Hveragerðisbæ um að lækka aldursviðmið í leikskólum sveitarfélagsins niður í 12 mánuði. Verið er að byggja nýjan leikskóla í Hveragerði þar sem ætlunin er að bjóða upp á þessa auknu þjónustu en Ölfus á 9% hlut í leikskólanum.

Íbúar Ölfuss sem búa í nágrenni Hveragerðis munu því að öllum líkindum fá þessa auknu þjónustu sem er töluvert betri en það sem þekkist í Þorlákshöfn en aldursviðmið í Leikskólanum Bergheimum er 24 mánuðir.  Yngri börn hafa þó verið tekin inn ef það er laust pláss og er þá miðað við aldursröð. Í Þorlákshöfn er þó mjög virk og góð dagmæðraþjónusta þar sem yngri börn fá inni og því má segja að svipuð þjónusta sé til staðar í bænum.

Á seinast ári skilaði starfshópur á vegum menntamálaráðuneytisins af sér skýrslu vegna þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi. Í henni kemst starfshópurinn að þeirri niðurstöðu að stefna stjórnvalda ætti að miðast við að bjóða börnum dvöl á leikskóla frá 12 mánaða aldri.

Opinber umræða um breytingar á aldursviðmiði leikskólabarna hefur ekki farið fram í sveitarfélaginu að sögn Gunnsteins Ómarssonar bæjarstjóra.

Eins og staðan er í dag er ekki hægt að taka börn inn við 12 mánaða aldur í Þorlákshöfn vegna húsnæðisskorts, þar sem ekki er búið að gera upp gamla hluta leikskólans, en samkvæmt áætlun verður það gert árið 2017. Hugmyndafræðin með þeirri breytingu er að færa viðmiðunaraldurinn niður í 18 mánuði úr 24.

Gunnsteinn_net„Það að færa aldurinn niður í 12 mánuði kallar líklega á aukna fjárfestingu en það hefur ekki verið skoðað sérstaklega. Í Þorlákshöfn hefur verið virk dagmæðraþjónusta sem ekki hefur verið t.d. í Hveragerði en vera má að sú staðreynd knýi á um þessa ákvörðun þeirra Hvergerðinga um að færa inntökualdur niður í 12 mánuði“ sagði Gunnsteinn í viðtali við Hafnarfréttir.

„Íbúum í Sveitarfélaginu Ölfusi er að fjölga og óhjákvæmilega verðum við að huga að þessum málum fyrr en síðar. Nemendum í Grunnskólanum í Þorlákshöfn fjölgaði mikið á seinasta skólaári og aukin eftirspurn hefur verið eftir leikskólaplássum á Bergheimum“ sagði Gunnsteinn að lokum.