„Þeir neyða í raun og veru þessi smærri fyrirtæki til þess að selja kvótann“

hofnin02Ólafur Arnarson, hagfræðingur, segir bankana markvisst reyna að færa veiðiheimildir frá smærri útgerðarfyrirtækjum til þeirra stærri. Hann segir vinnubrögð Landsbankans í kringum söluna á heimildum Hafnarness Vers til HB Granda vera í líkingu við Borgunarmálið. Þetta kom fram í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Þeir neyða í raun og veru þessi smærri fyrirtæki til þess að selja kvótann vegna þess að annars verði gengið að þeim og stóru fyrirtækin þau fá lánað endalaust. Þau fá afskrifað þannig að það er búið að gera þetta óbært fyrir aðra en þá sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá bönkunum og þar erum við að tala um þessi kvótasterku fyrirtæki. Kvótasterk bæði í bolfiski og þá sérstaklega í uppsjávar afla,“ sagði Ólafur í viðtalinu.

„Þetta þýðir það að Þorlákshöfn er orðið mjög berskjaldað byggðarlag. Það má ekki mikið út af bregða. Hvað gerist þegar að þessir hörku karlar sem halda úti þessum kvótalausu fyrirtækjum. Hvað gerist ef þeir bara gefast upp?“

Ólafi þykir framganga Landsbankans undarleg í þessu máli sérstaklega í ljósi þess að reynt hafi verið að selja kvótann innan Þorlákshafnar. „Hvað varð um loforðið eftir að Borgunarhneykslið kom upp? Hvað varð um loforðið um það að stærri eignasölur myndu framvegis vera í opnu ferli? Þarna bara kom bankinn og tók kvótann og hann lét annan viðskiptavin fá kvótann.“

„Ég held að stjórnvöld þurfi að leggja línuna, að bankakerfið verði að bæði að stunda eðlilega viðskiptahætti, það verður að gæta jafnræðis á milli sinna viðskiptavina. Stjórnvöld verða náttúrulega að koma á hér eðlilegu fiskveiðistjórnunarkerfi vegna þess að samkeppnisstaða í íslenskum sjávarútvegi hún er gjörsamlega óþolandi,“ sagði Ólafur að lokum í kvöldfréttum Stöðvar 2.