Verum nice!

Billi MaggNúna er hin árlega vika gleði og fjölbreytileika að ganga í garð. Á sama tíma og við fögnum fjölbreytileika lífsins eru voveiflegir atburðir að gerast alls staðar í heiminum. Við fáum af því fréttir á hverjum degi í gegnum alla þá ótal miðla sem til staðar eru í dag. Svo virðist sem að hryðjuverk, önnur voðaverk og mannvonska séu að sækja í sig veðrið og ég er hræddur um að ákveðin grunngildi í samfélagi manna séu á undanhaldi. Grunngildi sem ég tel, að við öll, viljum að ekki séu virt að vettugi í þessum heimi okkar.

Þessi grunngildi eru meðal annars virðing. Virðing fyrir náunganum, dýrum og náttúru en einnig fyrir okkur sjálfum. Þá vil ég einnig nefna vináttu og samkennd. Þetta þrennt, virðing, vinátta og samkennd, eru allt verkfæri sem við sem manneskjur eigum í verkfæratöskunni okkar. Og það magnaðasta er, sú staðreynd að það kostar ekkert að nota þau. Eina sem þarf er smá orka og tími. Gefum okkur tíma. Það á ekki að skipta máli hvar eða hvernig þú fæddist, hvaða trú þú iðkar, hvers kyns eða kynhneigðar þú ert, hvar þú stendur í pólitík eða hvern þú kaust í síðustu forsetakosningum. Öll viljum við að komið sé fram við okkur af virðingu, okkur sýnd vinátta og öll viljum við finna fyrir samkennd annarra þegar við þurfum á því að halda.

Ég átta mig á því að við breytum ekki heiminum á einum degi en við getum byrjað á því að líta í spegil og spyrja okkur sjálf hvort það sé ekki eitthvað í okkar fari sem betur má fara. Enginn er fullkominn, ekki þú og alls ekki ég. Það er því alltaf svigrúm til þess að bæta sjálfan sig. Með því að breyta okkur sjálfum og sýna gott fordæmi, getum við hvatt aðra til þess sama, við getum hvatt til virðingar, vináttu og samkenndar hjá öðrum. Brosum aðeins framan í heiminn. Heilsumst. Tölum saman. Verum bara svolítið meira nice. Við vitum og kunnum þetta allt saman – við þurfum bara að minna okkur á þetta.

Að lokum vil ég taka fram að ég er mjög meðvitaður um þau forréttindi sem ég er aðnjótandi, verandi hvítur samkynhneigður karlmaður, búsettur á Íslandi. Ég er heppinn, því ég á yndislega fjölskyldu og vini sem tóku mér opnum örmum þegar ég steig þetta skref fyrir nokkrum árum síðan. Margir og miklir sigrar hafa unnist í réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi, með blóði, svita og tárum. Fyrir þá vinnu og baráttu er ég mjög þakklátur. En við megum ekki missa boltann núna. Margt er óunnið. Viðkvæmt ástand í heiminum, líkt og er uppi núna, getur kollvarpað raunveruleika og lífi margra, sér í lagi minnihlutahópa. Munum þetta líka.

Gleðilega Hafnardaga og gleðilega Hinsegin daga elsku vinir.

‪#‎verumnice‬‬‬
Brynjólfur Magnússon