oli_hafnarnesNú má flestum hafa orðið ljóst að Hafnarnes VER hf, í Þorlákshöfn, hefur neyðst til að selja aflaheimildir sínar vegna skulda við viðskiptabanka sinn, skuldar sem eingöngu er tilkomin vegna kaupa á aflaheimildum árið 2006. Líkt og hjá öðrum fyrirtækjum og heimilum í landinu jukust skuldir okkar talsvert við efnahagshrunið, á sama tíma og veruleg verðlækkun varð á kjölfestumörkuðum okkar. Salan nú var framkvæmd til að eiga kost á að halda áfram rekstri fyrirtækisins. Þetta voru gífurlega þung og sár spor fyrir okkur, enda hafa aðstandendur félagsins stundað útgerð í 40 ár.

Síðustu daga hafa ýmsir tjáð sig um þetta mál, hvort sem þeir hafa einhverja vitneskju eður ei á þessum málefnum. Bæjarstjórn Ölfus hefur meðal annars sent frá sér ályktun, að auki hafa ákveðnir forystumenn bæjarins tjáð sig ógætilega á opinberum vettvangi um málið. Með þessu hefur forysta bæjarins ráðist að Hafnarnesi VER, þetta er fordæmalaus ósvífni og dónaskapur hjá bæjarstjórn sem á með störfum sínum frekar að reyna að styðja við atvinnurekstur í bænum, en ekki ráðast gegn fyrirtækjunum, þá síst þegar þau eru að reyna að vinna sig út úr erfiðri stöðu sem miðar að því að standa vörð um rekstur og vinnslu í sveitarfélaginu. Telji þeir sig eiga sökótt við einhvern þá eiga þeir frekar að beina spjótum sínum að löggjafanum, en ekki niðast á sveitungum sínum sem hafa ávallt hugsað um hagsmuni sveitarfélagsins og borið þá fyrir brjósti.

Það er erfitt að ætla að svara bæjarstjórn í stuttu máli og þykir mér í raun miður að þurfa að standa í því. Hafnarnes VER er ennþá starfandi í sveitarfélaginu og við höfum reynt okkar besta til að halda fólki í vinnu og halda áfram rekstri. Að fá kalda gusu yfir sig frá bæjarstjórninni í fjölmiðlum á sama tíma og fyrirtækið er upptekið við að róa öllum árum að því að komast í var þykir mér heldur ósæmilegt.

Að láta í veðri vaka að þetta hafi verið auðveld ákvörðun hjá okkur er í besta falli ósmekklegt. Fyrirtækið og aðstandendur þess bera sterkar taugar til sinnar heimasveitar og hafa reynt að láta gott af sér leiða. Síðustu misseri hafa verið mjög erfið og ákvörðunin um söluna var ekki tekin af léttúð, heldur illri nauðsyn. Þetta var nauðsynlegt skref til þess að geta haldið áfram rekstri til langframa og halda sem flestum í vinnu til lengri tíma litið.

Þess vegna var sárt að sjá forystu sveitarfélagsins Ölfuss slá fram fullyrðingum sem mátti skilja eins og forsvarsmenn Hafnarnes VER hafi verið að leika sér að þessu eða farið út í þessar erfiðu ráðstafanir á öðrum grundvelli en þeim að tryggja áframhaldandi starfsemi. Bæjarstjórnin mátti vita betur í ljósi þess að forseti bæjarstjórnar átti langan fund með forsvarsmönnum fyrirtækisins fyrir stuttu þar sem aðdragandi þessa máls og framhaldið var rætt. Erfitt er að sjá að hagsmunum sveitarfélagsins sé best borgið með því að forsvarsmenn þeirra hlaupi til og tjái sig gegn betri vitund opinberlega.

Í umræddri ályktun kemur fram að bæjarstjórn harmi þá þróun sem orðið hafi í sveitarfélaginu varðandi stöðu aflaheimilda. Það er gott og vel, eðlilegt er að menn hugsi um þessa hluti og það gerum við svo sannarlega líka. Þetta er þróun sem löggjafinn og stjórnvöld eiga sína sök á, og eðlilegt að bæjarstjórn líti þangað þegar leitað er að svörum, með auknum álögum og áreiti hafa stjórnvöld ekki gert reksturinn auðveldari. Þetta var þung aðgerð en nauðsynleg til þess að gera upp við bankann og eiga möguleika á því að halda rekstri áfram í sveitarfélaginu.

Bæjarstjórn kemur inná í ályktun sinni að þeim þyki miður að hafa fyrst frétt af sölu aflaheimilda í gegnum fjölmiðla. Ágætt er að staldra aðeins við þann punkt og velta fyrir sér áhuga manna á störfum fyrirtækja. Það er svo að núverandi bæjarstjóri hefur aldrei heimsótt fyrirtækið, hann hefur aldrei sýnt okkar starfi neinn áhuga, nema þegar hann fór í fjölmiðla í eitt skipti að ráðast að sjávarútvegsfyrirtækjum bæjarins án þess að hafa kynnt sér málin. Aðrir bæjarstjórar sem á undan honum voru höfðu það að sið að heimsækja fyrirtækin í sveitarfélaginu til að skoða aðstæður og spyrja frétta. Maður hlýtur að spyrja sig hvort að bæjarstjórinn og forysta bæjarstjórnar hafi ekki velt fyrir sér eftir sölu Auðbjargar á síðasta ári hvort að þeir ættu kannski að taka eins og einn hring að athuga stöðuna á öðrum fyrirtækjum í bænum.

Ef bæjarstjóri eða forysta bæjarstjórnar hefðu sýnt sambærilegan metnað og fyrri bæjarstjórar og verið í góðu sambandi við fyrirtækin í plássinu og hefðu athugað hvað var að gerast, þá hefðu þeir vitað betur um stöðuna og verið upplýstari um málin. Var það á forgangslista hjá þeim? Nei, forysta bæjarstjórnar og bæjarstjóri sáu ekki ástæðu til þess að athuga nokkurn skapaðan hlut, það var enginn áhugi af þeirra hálfu, svo þið verðið að afsaka að í þessu gífurlega erfiða ferli, að okkur hafi yfirsést að láta fólk vita sem engan áhuga hafði áður sýnt á okkar rekstri.

Annað má svo segja um upplýsingasókn bæjarstjórans. Hann var mjög duglegur að svara og mæta í viðtöl eftir að þetta var tilkynnt, í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það eitt og sér, það sem mér þykir hins vegar miður er að hann reyndi aldrei að ná sambandi við neitt af okkur sem rekum Hafnarnes VER til að afla sér einhverra upplýsinga um málið, þess í stað skundaði hann í viðtöl án þess að hafa hugmynd um hvernig í pottinn var búið. Það þykir mér ekki til eftirbreytni, lágmark er að menn hafi reynt að kynna sér málin áður en þeir fara að tjá sig um þau í fjölmiðlum.

Margt hefur komið fram varðandi sölu aflaheimilda út úr sveitarfélaginu. Ég myndi gjarnan vilja leiðrétta margt sem komið hefur fram í þeim málum en ég er því miður bundinn trúnaði um viðræðurnar og hvernig þeim lyktaði. Við töluðum við aðila sem eru með starfstöðvar á svæðinu um að kaupa aflaheimildirnar, Það gekk því miður ekki upp en ég bið fólk um að sýna því skilning að þetta var reynt en gekk ekki eftir.

Umræðan hefur á köflum verið eins og salan hafi verið liður í því að við séum að hætta eða að forða okkur, það er langt í frá, við erum hér áfram með rekstur og munum halda áfram að styðja við samfélagið í Ölfusi eins og við höfum alltaf gert í gegn um tíðina, okkar hjarta hefur slegið með samfélaginu og við höfum viljað láta gott af okkur leiða, það eru því ómerkilegar ávirðingar þegar einhverjir vilja halda því fram að við höfum ekki samfélagið í huga í okkar störfum.

Þetta er stórt og flókið mál sem margir hafa skoðun á. Það er sárt að sjá hvernig sumir vilja mála ljóta mynd af þessu og setja þetta í afskræmdan búning. Líkt og ég hef komið hér inn á þá voru þetta erfið spor að taka og okkur var hugsað til starfsfólksins og samfélagsins. Með þessu hefur tekist að losna við bankann og munum við halda áfram rekstri í sveitarfélaginu. Mér fannst ekki annað hægt en að svara því sem fram hefur komið að einhverju leyti, en héðan í frá er best að horfa til framtíðar og reyna að finna tækifæri fyrir sveitarfélagið Ölfus saman. Öll höfum við nefnilega sameiginlegan áhuga og hagsmuni af því að samfélaginu gangi vel.

Virðingafyllst
Ólafur Hannesson
Framkvæmdastjóri Hafnarnes VER hf.