Þórsarar meistarar meistaranna eftir sigur á KR

thor_meistararmeistaranna01Þórsarar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Íslands- og bikarmeistara KR í meistari meistaranna sem fram fór í DHL höllinni í kvöld. Lokatölur urðu 69-74 og þar með er einn bikar í höfn hjá Þórsurum.

Frekar mikill haustbragur var á leik beggja liða í kvöld en þó voru Þorlákshafnardrengirnir heilt yfir sterkari aðilinn. Þórsarar byrjuðu leikinn betur og leiddu 30-38 í hálfleik. Sóknarleikur liðsins datt niður á stórum köflum í þriðja og fjórða leikhluta og áttu menn oft á tíðum erfitt með að koma boltanum í körfuna. Maciej Baginski hélt Þórsurum gangandi með mikilli baráttu og stórum körfum í síðari hálfleik.

Niðurstaðan því fimm stiga sigur í miklum baráttuleik í kvöld. Þórsarar eiga þó enn inni Gréttar, Baldur og Þorstein en þeir eru að jafna sig af meiðslum.

Stigahæstur hjá Þór var Tobin Carberry með 28 stig en hann átti mjög fínan leik í kvöld. Maciej Baginski skoraði 22, Emil Karel 11, Ólafur Helgi 8, Halldór Garðar 3 og Erlendur Ágúst gerði 2 stig.

Fyrsti leikur Þórs í Domino’s deildinni er á fimmtudaginn þegar liðið mætir Grindavík í Grindavík klukkan 18.