Þjóðleikhúsið bauð upp á leiksýningu

leiksyning-1Þjóðleikhúsið bauð 5-6 ára börnum í Þorlákshöfn og Hveragerði upp á leiksýningu í Ráðhúsi Ölfuss í seinustu viku.

Sýningin sem boðið var upp á heitir Lofthræddi örninn hann Örvar. Leikgerðin er eftir Stalle Ahrreman og Peter Engkvist, en Björn Ingi Hilmarsson er leikstjóri sýningarinnar. Þýðinguna gerði Anton Helgi Jónsson. Oddur Júlíusson lék öll hlutverkin og sagði söguna með látbragði, söng, dansi og leik.

Leikritið fjallaði um Örvar sem er örn en er svo skelfilega óheppinn að vera lofthræddur. Hann þráir auðvitað heitt að fljúga um loftin blá og með hjálp vinar síns, músarrindilsins, tekst honum að lokum að yfirvinna ótta sinn og fljúga.

Eftir sýninguna bauð Leikskólinn Bergheimar í Þorlákshöfn öllum upp á pylsur í hádegismat. Þetta var virkilega skemmtilegur morgun og við þökkum Þjóðleikhúsinu kærlega fyrir frábæra sýningu.

-kós