Formleg opnun nýrrar aðstöðu Tónlistarskóla Árnesinga í Þorlákshöfn

yngri-skolakor-grunnskolans-tonlistarskoliMiðvikudaginn 16. nóvember síðastliðinn var formleg opnun á nýrri aðstöðu Tónlistarskóla Árnesinga í Þorlákshöfn sem staðsett er í grunnskólanum. Yngri skólakór grunnskólans byrjaði athöfnina á skólasöng Grunnskólans í Þorlákshöfn sem nefnist Vinátta, virðing og velgengni, en það eru einnig einkunnarorð skólans. Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss, Guðrún Jóhannsdóttir, skólastjóri grunnskólans og Róbert Darling skólastjóri tónlistarskólans héldu tölu og nemendur úr tónlistarskólanum spiluðu á hljóðfæri. Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir og Erla María Ingólfsdóttir spiluðu á þverflautu, Þröstur Ægir Þorsteinsson spilaði á trommu, Álfheiður Österby spilaði á klarínett, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir spilaði á saxófón, Lilja Rós Júlíusdóttir spilaði á píanó og Sólveig Þóra Þorsteinsdóttir spilaði á trompet. Athöfnin var falleg og gefandi, börnin spiluðu af mikilli innlifun og það er greinilegt að bætt aðstaðan veitir bæði nemendum og kennurum innblástur í námi og kennslu.

Tónlistarskóli Árnesinga var stofnaður árið 1955 og hefur deild hans í Þorlákshöfn verið einn kennslustaða frá upphafi. Í byrjun var kennt á ýmsum stöðum í bænum, t.d. í kirkjunni, Kiwanishúsinu og í þó nokkur ár voru aðalstöðvarnar í einbýlishúsi í Lýsubergi.

Árið 1996 fékk skólinn loks nokkur herbergi í grunnskólanum til notkunar og varð samband tónlistarskólans og grunnskólans miklu sterkara við það. Tónlist hafði alltaf verið mikilvægur þáttur í lífi í Þorlákshafnarbúa, en varð nú hluti af náminu í skólanum, m.a. vegna þessa að nemendur fengu að fara í tónlistartíma á skólatíma. Það var óvenjulegt á þeim tíma nema í sveitaskólum þar sem nemendur mættu í skólabílum í skólann.

Kennslustofurnar í grunnskólanum nýttust mjög vel til tónlistarkennslu í allmörg ár. Síðustu 15 árin hefur tónlistarkennsla hins vegar breyst mikið, sérstaklega þegar ný aðalnámskrá fyrir tónlistarskóla var tekin í notkun árið 2000. Námskráin leggur mun meiri áherslu á hópkennslu í formi samspils, hljómsveitarstarfs og tónfræðanáms, sem tónlistarkennurum finnst vera mjög mikilvægur þáttur í góðri tónlistarmenntun. Af þessu leiddi að þörf varð fyrir stærri kennslurými.

Tónlistarkennarar í Þorlákshöfn eru einstaklega ánægðir með nýju kennsluálmuna sem nú hefur verið tekin í notkun. Gefur húsnæðið þeim miklu meiri möguleika á breyttum kennsluháttum en áður var.

Tónlistarskóli Árnesinga þakkar Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir allan þann stuðning, sem það hefur veitt tónlist í bænum í gegnum árin og sérstaklega fyrir þessa miklu breytingu á húsnæði skólans, sem tekið er í notkun núna.

-kós