Þórsarar í undanúrslit eftir öruggan sigur á FSu

Styrmir Snær skoraði sín fyrstu 8 stig í kvöld fyrir meistaraflokk Þórs.

Þórsarar unnu góðan sigur á FSu í kvöld þegar liðin mættust í 8-liða úrslitum Maltbikarsins í körfubolta, lokatölur 104-68. Þar með hafa Þórsarar tryggt sér sæti í undanúrslitum sem fram fara í Laugardalshöllinni.

Leikurinn varð aldrei spennandi en gestirnir frá Selfossi bitu aðeins frá sér í fjórða leikhluta. Allir leikmenn Þórs fengu að spila í kvöld og var gaman að sjá hversu mikið stigaskorið dreifðist milli leikmanna.

Ragnar Örn Bragason var stigahæstur í liði Þórs með 20 stig, Halldór Garðar Hermansson var næstur með 16 stig og Ólafur Helgi Jónsson bætti við 13. Emil Karel Einarsson, Davíð Arnar Ágústsson og Grétar Ingi Erlendsson skoruðu allir 11 stig í kvöld. Styrmir Snær Þrastarson, 15 ára, kom sterkur inná í seinni hálfleik og skoraði hann 8 stig á rúmum 14 mínútum, vel gert! Aðrir leikmenn skoruðu minna.

Gaman er að geta þess að í liði FSu í kvöld voru fjórir Þorlákshafnarbúar, af 10 manna leikmannahópi liðsins, í stórum hlutverkum. Sveinn Hafsteinn Gunnarsson skoraði 11 stig,  Jón Jökull Þráinsson skoraði  10 stig, Sigurður Jónsson skoraði 5 stig og tvíburabróðir hans, Helgi Jónsson, skoraði 3 stig.