Gert ráð fyrir 2 milljónum króna í eftirlitsmyndavélar

„Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir tveimur milljónum króna til uppsetningar eftirlitsmyndavéla í Þorlákshöfn,“ segir Gunnsteinn R. Ómarsson bæjarstjóri Ölfuss.

Mikil umræða hefur verið á samfélagsmiðlum undanfarna mánuði um mikilvægi þess að setja upp myndavélabúnað í Þorlákshöfn eftir að einstaklingur reyndi að lokka til sín börn í september síðastliðnum.

Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss.

„Til umræðu hefur verið að setja upp öryggismyndavélar við innkeyrslu í Þorlákshöfn, sem hefðu bæði fælingarmátt á óæskilega umferð í bæinn og nýst gætu lögreglu til rannsókna en lögregluststjóri mælir með uppsetningu slíkra véla,“ segir í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

Þar segir einnig að setja eigi upp myndavélar við stofnanir sveitarfélagsins sem tengdar yrðu í miðlægt kerfi, s.s. höfn, grunnskóla, leikskóla, ráðhús og jafnvel fleiri staði.

„Í tengslum við aukin umsvif við höfnina, s.s. reglubundnar ferjusiglingar verða settar upp eftirlitsmyndavélar og verður reynt að vinna þessi verkefni samhliða,“ segir Gunnsteinn að lokum.