Einar Árni: Stuðningur ykkar getur skipt sköpum

Kæru stuðningsmenn Þórs,
Á morgun leikur Þór frá Þorlákshöfn í Bikarúrslitum KKÍ annað árið í röð, og aftur gegn KR sem eru ríkjandi Íslands- og Bikarmeistarar.

Mig langar að nýta tækifærið og hvetja alla stuðningsmenn, búsetta í Ölfusi eða annars staðar á landinu til að fjölmenna í Laugardalshöll á morgun og vera klár í slaginn, helst í grænu, með okkur þegar leikar hefjast klukkan 16:30.

Stuðningur ykkar getur skipt sköpum og þarf ekkert að fara mörgum orðum um mikilvægi öflugs stuðnings sem liðið fékk í gær í undanúrslitum gegn Grindavík en á morgun er það stóri dagurinn – sjálfur úrslitaleikurinn – eitthvað sem enginn Þórsari á að láta framhjá sér fara og þar ætlum við öll að eiga okkar besta dag félaginu til heilla.

Sjáumst í Höllinni,
Þór í þúsund ár!
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs í Þorlákshöfn