Opið bréf til bæjarstjórnar Ölfuss

Í ljósi þess að á fundi bæjarstjórnar Ölfuss þann 23.2. sl. var samþykkt kauptilboð í fasteignina Selvogsbraut 4, hér í Þorlákshöfn sé ég mig knúna til að skrifa nokkur orð um málið og óska svara frá bæjarstjórn.

Samþykkt var að kaupa eignina á fundi bæjarráðs þann 14.1. 2016. Ekki kemur fram í fundargerð hvað greitt var fyrir eignina. Ég spyr því hvað var greitt fyrir eignina, hver var rekstarkostnaður húsnæðisins á þeim tíma sem sveitarfélagið átti það? Hvað kostuðu endurbæturnar á húsinu?

Fram kemur í fundargerð bæjarstjórnar þann 23.2. 2017 að „á þeim tíma sem liðinn er frá kaupunum hefur bæjarstjórn haft húsið til sölu eða leigu og horft til þess að sá sem við húsinu taki byggi þar upp myndarlega ferðaþjónustustarfsemi“. Hvar og hvenær hefur húsnæðið verið auglýst til sölu eða leigu? Eina auglýsingin sem ég hef séð er sú þar sem óskað var eftir hugmyndum um hvernig mætti nýta húsið. Ekkert kom fram um hugsanlegt leiguverð, leigutíma eða önnur kjör.

Það er rétt að það komi fram að ég var ekki sammála því að kaupa húsið. Tel það ekki í verkahring sveitarfélagsins eða í þágu íbúanna að sveitarfélagið standi í fasteignabraski hvort sem það er í nafni fegrunar bæjarins eða annarra hvata. En fyrst að það var gert vonaði ég að vel yrði staðið að því að leigja og þá kannski seinna selja eignina. Þá meina ég gagnsætt ferli, bæði hugsanleg leiga og sala, auglýst með skýrum skilmálum um leigu/sölu upphæðir, greiðslukjör o.s.frv. Miðað við þær upplýsingar sem ég get fundið í fundargerðum bæjarráðs og bæjarstjórnar var það ekki gert. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.

Að síðustu er algjörlega fráleitt í mínum huga að sveitarfélagið láni kaupverðið á kjörum sem fást ekki fyrir venjulega viðskiptavini í bönkum. Sveitarfélagið okkar er ekki lánastofnun. Gagnsæi í öllum viðskiptum sveitarfélagsins er eðlileg og sjálfsögð krafa þar sem verið er að höndla með almannafé.
Með von um skjót og skilmerkileg svör.

Með vinsemd og virðingu.

Kristín Magnúsdóttir