Fyrsta innanfélagsmót GÞ á fimmtudaginn

Fyrsta innanfélagsmót Golfklúbbs Þorlákshafnar fer fram á morgun, fimmtudaginn 4. maí, og hefst það klukkan 18. Mótið átti að vera í gær, þriðjudag, en vegna veðurs þurfti að fresta því til fimmtudags.

Innanfélagsmótin verða með öðru sniði í sumar en verið hefur. „Mótin verða átta talsins og hægt er að sjá dagsetningar á golf.is. Við hættum með Texas Scramble mótin og keppt verður í tveimur flokkum. Níu holu punktakeppni með forgjöf og höggleik án forgjafar þar sem fjögur bestu af 8 mótum sumarsins telja. Spila þarf því að lágmarki í fjórum mótum til að eiga möguleika á verðlaunum,“ segir á Facebooksíðu Golfklúbbs Þorlákshafnar.

Í lok sumars verða veitt verðlaun fyrir hvern flokk og eru verðlaunin 30.000 króna gjafabréf í Golfbúðina í Hafnarfirði. Sami leikmaður getur ekki unnið í báðum flokkum og telst hann á undan í höggleik án forgjafar. Hámarksforgjöf er 30 hjá körlum og 36 hjá konum.

„Kylfingar þurfa ekki að vera með virka forgjöf til að taka þátt né vinna til verðlauna því við viljum hvetja sem flesta til að vera með. Gestir eru einnig velkomnir en þeir geta ekki unnið til verðlauna,“ segir í tilkynningu Golfklúbbs Þorlákshafnar.

Skráning fer fram á golf.is og er mótsgjald 1.000 krónur fyrir hvert mót en mótanefnd sér um að raða í rástíma.