Nýtt ferðaþjónustufyrirtæki tekið til starfa í Þorlákshöfn

Ferðaþjónustufyrirtækið Black Beach Tours hefur nú tekið til starfa í Þorlákshöfn en fyrirtækið býður upp á skemmtilegar fjórhjóla- og RIB-báta ferðir á svæðinu. Einnig er boðið upp á Jóga á ströndinni fyrir þá sem það vilja.

Það er Einar Sigurðsson og hans fjölskylda sem eiga fyrirtækið en þau ákváðu að hella sér út í ferðamannabransann eftir að hafa rekið útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Auðbjörg í Þorlákshöfn í nokkra áratugi.

Fyrirtækið hefur að undanförnu verið að prufukeyra ferðir á fjórhjólum og öðrum RIB bátnum og hafa undirtektir verið mjög góðar. Samkvæmt Össa, einum af forsvarsmönnum Black Beach Tours, hafa viðtökur komið skemmtilega á óvart þó fyrirtækið sé bara rétt að byrja. „Það er kannski ekkert skrýtið þar sem umhverfið hér í kring um Þorlákshöfn er einstaklega fallegt, náttúran og fuglalíf mikið. Við eigum svo sannarlega leyndar perlur hér í kring sem ekki endilega margir átta sig á.“ segir Össi í samtali við Hafnarfréttir.

Black Beach Tours hefur komið sér upp góðri aðstöðu að Hafnarskeiði 17 til að taka á móti gestum sem ætla að nýta sér ferðir fyrirtækisins en móttakan er þar sem áður var netaverkstæði og skrifstofuaðstaða Auðbjargar. „Þar verður hægt að setjast niður eftir ferðir og fá sér kaffi og með því. Við erum líka að setja upp skemmtilega myndasyrpu á veggina þar sem sýnir Þorlákshöfn og útgerð aftur í tímann og allt til dagsins í dag. Guðmundur Brynjar Þorsteinsson, betur þekktur sem Bibbi, hefur verið að hjálpa okkur mikið með það.“

Nýji báturinn í prufu siglingu í Póllandi. Hann er væntanlegur uppúr miðjum mánuðinum.

Þá segir Össi að fyrirtækið sé einnig að bæta við sig einum RIB-bát til viðbótar. „Hann er í smíðum í Póllandi og ætti að koma til landsins um og eftir miðjan júní. Sá bátur er merkilegur fyrir þær sakir að vera stærri en sá sem fyrir er og er útbúin með sérstökum demparasætum sem eiga að gera ferðirnar þægilegri fyrir farþegana.“

Black Beach Tours býður upp á tvenns konar RIB-báta ferðir. „Annars vegar klukkustundar sigling með ströndinni eða tveggja tíma ferð alla leið út að Krýsuvíkurbjargi.“ Þá býður fyrirtækið einnig uppá tvenns konar fjórhjólaferðir. „Við bjóðum uppá klukkustundar fjórhjólaferð á ströndinni eða þriggja tíma ferð þar sem farið er upp í hraun og hellar jafnvel skoðaðir. Sum sé af nógu að taka að ógleymdu jóganu út í náttúrunni,“ segir Össi aðspurður út í ferðirnar sem fyrirtækið býður uppá.

Eins og áður segir er Black Beach Tours með aðstöðu við Hafnarskeið 17 í Þorlákshöfn en fyrirtækið getur að auki tekið á móti hópum sem og blandað saman fjórhjólaferðum og bátaferðum.

Allar nánari upplýsingar er hægt að finna á vefsíðunni www.blackbeachtours.is.