Digiqole ad

Óli Ragnar til Þórs: Leikmannahópurinn klár

 Óli Ragnar til Þórs: Leikmannahópurinn klár

Óli Ragnar, Jóhanna Margrét formaður og Ólafur Helgi eftir undirskrift samninga en Ólafur Helgi framlengdi samning sínum við félagið.

Óli Ragnar, Jóhanna Margrét formaður og Ólafur Helgi eftir undirskrift samninga en Ólafur Helgi framlengdi samning sínum við félagið.

Þórsarar hafa samið við leikstjórnandann Óla Ragnar Alexandersson um að leika með liðinu á komandi vetri í Dominos deildinni. Frá þessu er greint á Facebookar-síðu Þórs.

Óli Ragnar er 24 ára gamall og er alinn upp hjá Njarðvík og lék þar undir stjórn Einars Árna, bæði í yngri flokkum og svo á árunum 2011-2014 í meistaraflokki. Hann lék síðast með Snæfelli frá áramótum 2014-2015 og tímabilið 2015-2016 en þá fótbrotnaði hann í leik með félaginu og gekk illa að ná bata svo að hann lék ekki áfram með Snæfell á síðasta vetri vegna meiðsla. Síðara tímabilið með Snæfell skilaði hann 2,2 stigum, 2,9 fráöstum og 4,3 stoðsendingum á leik.

Með komu Óla Ragnars er myndin á leikmannahóp Þórs orðin skýr en þeir Jesse Pellot-Rosa og Snorri Hrafnkelsson höfðu áður gengið til liðs við félagið. Einar Árni Jóhannsson þjálfari Þórs segir í samtali við Fésbókarsíðu Þórs að honum litist mjög vel á leikmannahópinn fyrir komandi vetur og ekki væri ætlunin að bæta frekar við hópinn.

Hópurinn telur 15 stráka og þar af 11 þeirra sem eru uppaldir í Þorlákshöfn og mun félagið einnig tefla fram unglingaflokki á komandi vetri enda sjö af þessum fimmtán leikmönnum enn gjaldgengir í unglingaflokki.