Öruggur sigur Ægis í Sandgerði

Ægismenn gerðu góða ferð í Sandgerði í kvöld þegar þeir sóttu dýrmæt þrjú stig gegn heimamönnum í Reyni í 3. deildinni í knattspyrnu.

Leikurinn var aldrei í hættu fyrir Ægismenn og skoraði liðið þrjú mörk í fyrri hálfleik og eitt í þeim síðari gegn engu marki heimamanna. Lokatölur því 0-4.

Guðmundur Garðar Sigfússon var sjóðheitur í þessum leik og skoraði þrennu fyrir Ægismenn. Fyrsta mark hans kom eftir 14 mínútna leik og bætti hann við öðru marki á 37. mínútu. Fimm mínútum síðar kom Paul Bogdan Nicolescu Ægismönnum í 0-3. Guðmundur kórónaði öruggan sigur með sínu þriðja marki á 82. mínútu.

Eftir leikinn sitja Ægismenn í 7. sæti með 11 stig en næsti leikur Ægis er heimaleikur gegn Einherja laugardaginn 29. júlí.