Sorphirða í Þorlákshöfn – Gunnsteinn: „Það þarf að bregðast við“

„Þetta er lærdómsferli fyrir alla og við verðum að skoða þetta í ljósi reynslu og meta hvað gera þarf því það þarf að bregðast við,“ segir Gunnsteinn Ómarsson bæjarstjóri Ölfuss í stuttu samtali við Hafnarfréttir um hitamálið í Þorlákshöfn þessa dagana, sorphirðuna.

Margir íbúar Þorlákshafnar eru ekki sáttir með fyrirkomulagið á sorphirðunni í bæjarfélaginu ef marka má andrúmsloftið í hópnum Íbúar í Þorlákshöfn á Facebook.

Sú frábæra nýbreytni varð í vor að ný tunna undir plast bættist við á hvert heimili auk þess sem hólf undir lífrænan úrgang var sett í almennu sorptunnurnar.

Almenna sorpið er hirt þriðju hverju viku en plasttunnan og pappatunnan eru hirtar sjöttu hverja viku en það fyrirkomulag leggst ekki vel í marga íbúa bæjarins.

„Það er hundfúlt að upp úr öllum tunnum fljóti en á hinn bóginn jákvætt að magnið sé að koma í plastílátin en ekki í það almenna eins og áður var. Ég get tekið undir það af eigin reynslu að það er plastið sem hraðast fyllist og erfiðara er að pressa það í tunnuna en pappann.“ segir Gunnsteinn að lokum.