Leik frestað: „Ömurleg staða því menn hafa beðið spenntir eftir þessum leik“

Mótanefnd KKÍ hefur samþykkt að fresta leik Þórs og Grindavíkur sem fram átti að fara í Grindavík í kvöld vegna veikinda leikmanna Þórs.

„Staðan á okkur síðustu daga hefur verið slæm. Hópurinn kom heim frá Spáni á miðvikudag í síðustu viku og þá fóru menn að leggjast. Síðustu menn lágu eftir helgina og hafa 11 af 14 leikmönnum veikst. Staðan hefur verið mis alvarleg. Fjórir leikmenn hafa fengið væg einkenni en sjö verri og þeir eru ekki leikfærir, og erfiðasta tilfellið er frá heimkomu og sá liggur enn. Staðfest hefur verið að um Campylobacter er að ræða.“ segir Einar Árni þjálfari Þórs í samtali við Hafnarfréttir.

„Við höfum ekki náð æfingum með hópinn síðan fyrir KR leikinn vegna veikinda og við vonum að sem flestir komist á ról á næstu dögum. Þetta er ömurleg staða því menn hafa beðið spenntir eftir þessum leik.“

Nýr leikdagur mun líklegast skýrast seinna í dag.