Verði rusl

Ruslamálin hafa verið það heitasta sem hefur verið rætt hér í sveitarfélaginu síðustu mánuði, þ.e.a.s. skortur á þjónustu við fólk.  Ég stóð upp á kynningarfundi í vor og gagnrýndi þetta nýja fyrirkomulag og benti á að um væri að ræða skerðingu á þjónustu við íbúa. Því var fálega tekið og nánast höstuglega líkt og gagnrýnin umræða væri ekki velkomin á þessum fundi.  Á fundinum var að sama skapi kynnt hugmyndir að framtíðar deiliskipulagi. Var þar að finna hugmynd um fyrirhugaða staðsetningu gámasvæðisins.  Nýju hugmyndirnar voru að setja ruslið beint við hliðina á húsnæði þar sem ég er með matvælaframleiðslu. Ég mótmælti þessu á fundinum en þetta var víst ekki rétti vettvangurinn fyrir þau mótmæli.

Þessi nýja staðsetning er á milli Vesturbakka og Unubakka. Inn á milli rótgrónna húsa. Því var lofað að það yrði fundur síðar þar sem eigendum húsnæðis á svæðinu yrði boðið og farið yfir málið þá.  Svo leið og beið og sumarið kláraðist og ekkert heyrðist. Það var svo ekki fyrr en ég fékk símtal frá aðila sem á eina eign sem liggur upp að fyrirhuguðu ruslasvæði þar sem hann spyr hvort að ég komi ekki á fundinn á morgun.  Kemur í ljós að við sem stöndum að húsnæðinu að Unubakka 21 sem liggur alveg við hliðina á fyrirhuguðu ruslasvæði fengum ekki boð á þennan fund.  Ég veit ekki hvort það hafi verið almennur klaufaskapur eða hvort þau hafi viljað koma í veg fyrir að við kæmum á fundinn og með því minnka líkurnar á því að einhver mótmæli yrðu á þessum áætlunum.

Ef áætlun þeirra var að koma í veg fyrir mótmæli á fundinum þá klúðraðist það hressilega, því á fundinum voru allir á móti þessari staðsetningu fyrir utan einn aðila. Allir eigendur húsnæðisins í kring sem ég veit til, utan þessa eina eru harðlega á móti því að ruslinu sé komið fyrir þarna. Þegar húsin voru byggð eða menn keyptu þau, stóð aldrei til að fá ruslahaug þarna við.

En eins og áður segir þá voru kröftug mótmæli að hálfu eigenda eigna í kring um fyrirhugaða staðsetningu.  Maður hefði haldið að bæjarstjórn myndi virða vilja þeirra og skoða nýja staðsetningu.     Nei, bæjarstjórn ætlar að halda áfram með þessa staðsetningu og hunsa vilja fólks sem á eignir þar í kring. Bæjarstjórn sem á að vinna fyrir íbúa og fyrirtæki en ekki gegn þeim vill ekki gera hlutina í sátt við fólk og fyrirtæki.

Ármann Einarsson bæjarfulltrúi D lista reyndi að fá aðra í bæjarstjórn til að breyta staðsetningunni vegna þess að fólk í kring um svæðið væri á móti því að fá ruslið þangað, viðbrögð sem maður hefði talið eðlileg. Eðlilegt ferli væri að þau kynntu málið, og þegar að viðbrögðin eru hörð mótmæli, þá ætti framhaldið væntanlega að snúast um að reyna að finna aðra lausn. En þvert á það sem eðlilegt ætti að vera þá vill bæjarstjórn hunsa vilja þeirra sem verða fyrir áhrifum af þessu og þjösna þessu máli í gegn þvert á vilja fólks sem þau ættu að hlusta á.

Nú vil ég taka það fram að ég ber engan persónulegan kala gagnvart þeim sem sitja í bæjarstjórn, þvert á móti líkar mér vel við þau öll og veit að þau eru gott fólk. Mér sárnar þó hvernig framganga þeirra hefur verið í þessu máli sem og öðrum, því þetta er í raun ekki í fyrsta skiptið sem bæjarstjórnin ræðst að fyrirtækjum hér í bæjarfélaginu, ræðst að fólki sem reynir sitt besta að halda atvinnu hér á svæðinu. Það er sorglegt og ekki hlutverk bæjarstjórnar sem á frekar að veita stuðning og aðstoð.

Við rekum matvælaframleiðslu við hliðina á svæðinu þar sem ruslasvæðið er fyrirhugað. Ég þarf reglulega að koma með viðskiptavini og sýna þeim vinnsluhúsið. Það er ekki mjög geðslegt að kíkja þangað sem matvælin þín eru framleidd og horfa svo beint í ruslið sem á að vera þar við hliðiná. Því takið eftir því að girðingin sem á að vera umhverfis svæðið á að vera gagnsæ, ég mun því horfa beint inn á ruslasvæðið frá hurðinni á Unubakka 21.

Það er ekki eins og landsvæði sé af skornum skammti hér og mikið pláss þar sem hægt væri að setja ruslasvæðið, lagðar hafa verið fram aðrar tillögur sem bæjarstjórn hunsar.  Væri ekki skynsamlegra að setja svæðið þar sem engin hús eru fyrir, þannig að þegar þú byggir í kring um svæðið þá liggur það skýrt fyrir hvað er á svæðinu, í stað þess að troða þessu á milli núverandi húsa í óþökk eigenda þeirra.

Því er lofað að þetta verði snyrtilegt og fallegt svæði, ég hef takmarkaða trú á því til lengri tíma. Því miður er almenn reynsla sú að hlutir drabbast niður og sama hversu flottir hlutir verða í byrjun, það þarf að viðhalda því og það er því miður ekkert sem tryggir að það verði gert. Loforð þeirra í dag er ekki trygging til langs tíma.

Frestur til að skila inn mótmælum rennur að mér skilst út þann 2. nóvember. Ábendingum og athugasemdum skal skila til skipulags- og byggingarfulltrúa á netfangið sigurdur@olfus.is.  Ég mun senda inn mótmæli og ég vona að aðrir geri slíkt hið sama.

Hér varð allt brjálað þegar hugmyndin var að setja svæðið við áhaldahúsið. Rétt við íbúabyggð og við önnur fyrirtæki, hætt var við þær áætlanir. Er réttur okkar sem erum með húsnæði á fyrirhugaðri staðsetningu minni en annara? Fólk vill ekki hafa þetta í bakgarðinum hjá sér, en er það í lagi að setja þetta hjá öðrum.  Reynum að gera hlutina í sátt við hvert annað, að setja ruslið á annan stað er vel hægt án þess að ganga gegn fólki.

Með vinsemd og virðingu
Ólafur Hannesson