DJ Balentine til liðs við Þór

Þórsarar hafa samið við Bandaríkjamanninn DJ Balentine um að leika með liðinu í Domino’s deildinni í körfubolta. Frá þessu er greint á Karfan.is.

DJ Balentine er 24 ára gamall, 191 cm hár bakvörður. Hann spilaði síðast fyrir Den Bosch í Hollandi en hann hefur einnig spilað í Litháen eftir að hafa spilað í fjögur ár með háskólaliði Evansville árin 2012-2016.

Jesse Pellot Rosa, núverandi erlendi leikmaður Þórs, snéri sig á ökkla í bikarnum gegn Tindastól fyrir mánuði síðan og eru meiðslin enn að hrjá hann í dag.

„Við erum einfaldlega að meta stöðuna á þessu þar sem bati hefur verið lítill. Við erum búnir að semja við nýjan mann í ljósi stöðunnar og hann er væntanlegur á næstu dögum. Að þessu sögðu liggur ekki fyrir með hvaða hóp við mætum með norður á fimmtudag,“ sagði Einar Árni, þjálfari Þórs, í samtali við Karfan.is.