Olís-búðin áfram opin í Þorlákshöfn

Einar Gíslason, útibússtjóri Olís í Þorlákshöfn, hefur ákveðið að hætta við lokun verslunarinnar í bæjarfélaginu eins og til stóð og Hafnarfréttir greindu frá.

„Eftir nákvæma skoðun á möguleikum félagsins hefur legið fyrir að rekstur verslunarinnar gengur engan veginn upp með óbreyttum hætti,“ segir Einar Gíslason en honum hafa borist margar áskoranir bæði frá fyrirtækjum og einstaklingum sem lýst hafa áhyggjum sínum ef starfsemin leggist alfarið niður í Þorlákshöfn.

Einar hefur ákveðið að hafa opið fyrir hádegi alla virka daga til að leysa úr þörfum sem flestra. „Þótt starfsemin verði rekin með einum manni, verður lögð á það áhersla að tryggja mestu viðveru á þeim tíma.“

„Trúi ég því og vona, að sem flestir sjái sér fært og finni sér hag að því, að ganga í það með mér, að tilraun þessi og viðspyrna verði okkur flestum og byggðinni til góðs,“ segir Einar að lokum.