Halldór Garðar íþróttamaður Ölfuss 2017

Halldór Garðar Hermannsson íþróttamaður Ölfuss 2017

Íþróttamaður Ölfuss árið 2017 er Halldór Garðar Hermannsson. Kjörið á íþróttamanni Ölfuss fór fram í Ráðhúsi Ölfuss í dag en samkvæmt íþrótta- og æskulýðsnefnd var valið mjög erfitt þar sem margir íþróttamenn úr Ölfusi sköruðu fram úr í sinni grein á síðasta ári.

Umsögn Íþrótta- og æskulýðsnefndar um Halldór Garðar:

Halldór er fæddur 1997 og hefur átt glæsilegt körfuboltaár. Hann hefur leikið með meistaraflokki frá unga aldri en Halldór hefur verið sterkur leikmaður í yngri flokkum Þórs og í unglingalandsliðum KKÍ. Hann er orðinn lykilleikmaður í meistaraflokki Þórs og hefur sett að meðaltali 13,4 stig, 6 fráköst, 5 stoðsendingar í Íslandsmótinu í vetur. Halldór er reynslumikill leikmaður þrátt fyrir ungan aldur en hann hefur verið í öllum yngri landsliðum KKÍ og leikið á Norðurlandamótum og Evrópumótum.

Halldór var lykilleikmaður með U20 ára landsliði Íslands sem tryggði sér sæti í 8 liða úrslitum á EM A-deild í sumar með mögnuðum sigri á sterku liði Svía. Ekkert landslið hefur náð eins góðum árangri á Evrópumóti.

Sjö íþróttamenn voru tilnefndir í kjörinu um íþróttamann Ölfuss 2017 en listann má sjá hér fyrir neðan. Einnig voru viðurkenningar veittar til þeirra sem unnið hafa bikar- eða Íslandsmeistaratitil á árinu og/eða hafa keppt með landsliði Íslands í sinni grein.

Þessi voru tilnefnd til íþróttamanns Ölfuss 2017

Ingvar Jónsson – Tilnefndur af Golfklúbbi Þorlákshafnar
Þorbergur Böðvar Bjarnason – Tilnefndur af Knattspyrnufélaginu Ægi
Katrín Eva Grétarsdóttir – Tilnefnd af Hestamannafélaginu Háfeta
Halldór Garðar Hermannsson – Tilnefndur af Ungmennafélaginu Þór, körfuknattleiksdeild
Róbert Khorchai Angeluson – Tilnefndur af Ungmennafélaginu Þór, frjálsíþróttadeild
Axel Örn Sæmundsson – Tilnefndur af Ungmennafélaginu Þór, badmintondeild
Heiðar Örn Sverrisson – Tilnefnd af Ungmennafélaginu Þór, akstursíþróttadeild

Hafnarfréttir óska Halldóri Garðari  og öllum þeim sem tilnefnd voru innilega til hamingju með frábæran árangur.