Stefnt að 5.000 tonna landeldi í Þorlákshöfn

Fyrirhugað er að opna allt að 5.000 tonna eldi í Þorlákshöfn á fyrri hluta árs 2019 og mun verkefnið skapað allt að 50 störf auka tengdra starfa. Þetta kom fram á íbúafundi sem haldinn var fyrr í dag.

Á fundinn mættu forsvarsmenn fyrirtækisins Landeldi ehf. sem stendur fyrir þróun fiskeldisstöðvarinnar og að þeirra sögn hentar stöðin „einkar vel fyrir lax og bleikju, og verður lagt upp með að þaulelda fiskinn í stöðinni, slátra og vinna í Þorlákshöfn. Þannig er markmið Landeldis ehf. að stuðla að bættu atvinnulífi í sveitarfélaginu og vera virkur hluti af lifandi og vaxandi bæjarfélagi.“

Matsfyrirspurnum er lokið og er verkefnið í umhverfismati en gert er ráð fyrir að því ljúki haustið 2019. Gangi það eftir mun fyrsti hluti framkvæmdanna, sem áætlað er að verði 1.500 tonn, hefjast fyrri hluta árs 2019. Heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður 5-6 milljarðar króna.

Fyrirhugað eldi verður staðsett á Laxabraut á svæði sem er  8,6 ha að stærð og samanstendur af um 4 til 7 metra djúpri grjótnámu sem nýtt var á árum áður til öflunar grjóts til gerðar sjóvarnargarða fyrir hafnaraðstöðu Þorlákshafnar. Til viðbótar við landeldið við Laxabraut er gert ráð fyrir að seiðin sjálf komi einnig úr sveitarfélaginu en fyrirtækið á land í Ölfusi sem það hyggst nýta til þess.

Á fundinum kom fram að styrkur þess að vera með landeldi sé t.d. það að líkur á laxalús séu hverfandi  og hægt sé að lágmarka lyfjanotkun. Umhverfisáhrif eru lítil og auðveldara er að hafa stjórn á aðstæðum í samanburði við sjókvíaeldi. Frárennsli eldisins verður síað og stefnt er að því að nýta affallið til að framleiða rafmagn fyrir framleiðsluna.

Að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins er um að ræða „fiskeldisstöð á landi sem framleiðir umhverfisvottaða vöru með vistvænum aðferðum, í sátt við náttúru og samfélag, með það að markmiði að fullnýta alla hugsanlega framleiðsluþætti.“