Jónas Sig æfir fyrir nýja plötu í Grunnskólanum í Þorlákshöfn

Einhverjir Þorlákshafnarbúar kunna að hafa heyrt óm úr Grunnskólanum síðustu kvöld með taktföstum tónum en þar var að verki Jónas okkar Sigurðsson ásamt hljómsveit sinni. Hann undirbýr nú útgáfu sinnar fjórðu sóló plötu sem er væntanleg á haustmánuðum og ber sú nafnið Milda hjartað.

Jónas segir væntanlega plötu vera afar spennandi verkefni sem hann hefur unnið að með Ómari Guðjónssyni sem upptökustjóra ásamt hópi góðra tónlistarmanna í vel á annað ár. Samhliða plötunni er hugmyndin að gera bók með hugleiðingum laganna og mynda þannig sterkari heildarmynd sem fólk getur upplifað og gleymt sér í samblandi af orðum og tónum plötunnar.

Í tengslum við útgáfu plötunnar æfir Jónas nú með hljómsveit sinni sem verður með örlitlu breyttu sniði en áður hefur verið til að falla betur að hljóðheimi nýju plötunnar. Nú æfir hljómsveitin af krafti til að stilla saman strengi sína fyrir komandi verkefni, en það er margt í pípunum eins og gengur þegar útgáfa nýrrar plötu er væntanleg. Jónasi þótti einstaklega vænt um það að fá leyfi til þess að koma með hljómsveitina í gamla skólann sinn til þess að æfa og gerði merkilega uppgötvun í leiðinni.

„Jú, ég veit ekki hvaða regluverki örlagavaldar lífs míns hafa starfað eftir en hér eru einhver dulin skilaboð. Þegar ég fór að skoða bekkjarmyndirnar gömlu tók ég eftir því að ég er aftast, annar frá hægri á þeim öllum. Tilviljun eða guðleg íhlutun? Það er von að maður spyrji“, segir Jónas og hlær.