Rafn hannaði merki liðsins sem mætir Selfossi í Evrópukeppninni

Karlalið Selfoss í handbolta mætir til leiks í Evrópukeppni félagsliða í fyrsta sinn í 24 ár á laugardaginn og spilar liðið tvo leiki við Klaipeda Dragunas frá Litháen.

Með fullri virðingu fyrir Selfyssingum þá væru Hafnarfréttir ekki að fjalla um viðburð á Selfossi nema tenging við Þorlákshöfn væri til staðar.

Þannig skemmtilega vill til að Þorlákshafnarbúinn Rafn Gíslason hannaði einmitt félagsmerki Dragunas. Rafn er mjög öflugur og hefur hannað fjölda mörg íþróttamerki sér til gamans en þó hefur hann einnig hannað nokkur merki fyrir félagslið hérlendis sem og erlendis.

Dragunas er besta handboltalið Litháens og fengu þeir Rafn til að hanna fyrir sig merki eftir að forsvarsmenn íþróttaliðsins Stál-úlfur höfðu bent Dragunas á hann en Rafn hannaði merki Stál-úlfs á sínum tíma.

Þá er gaman að geta þess að Rafn fékk póst frá fulltrúa í handboltadeild Selfoss þar sem Dragunas höfðu farið þess á leit við Selfoss að teknir yrðu frá miðar fyrir Rafn á leikinn á laugardaginn.