Skólaakstur í dreifbýli stórefldur

Töluverð óánægja hefur verið með skólaakstur í dreifbýli Ölfuss upp á síðkastið. Bæði er sá tími sem hvert barn ver í bílnum umfram það sem æskilegt er og einnig er sá tími sem er áætlaður í aksturinn ekki nægilega rúmur til að tryggja að börnin séu mætt á réttum tíma í skólann.

Til viðbótar við þetta þá liggur jafnframt fyrir að tímasetningar heimaksturs eru ekki nægilega heppilegar þar sem fyrri bíllinn er farinn rétt áður en hluti barna lýkur skólatíma.

Bæjarráð fjallaði um málið á fundi sínum í morgun og samþykkti samhljóða að bæta tafarlaust við þriðja skólabílnum til að sinna skólaakstri í dreifbýli sveitarfélagsins. Í bókun bæjarráðs kom einnig fram að skipuleggja skuli aksturinn þannig að börnin verji sem minnstum tíma í bílnum. Sérstaklega verður horft til þess að einn bíll aki um suðursvæðið (frá Hrauni að Hveragerði), annar bíll um svæðið norðan Ölfusár og að þjóðvegi og þriðji bílinn um Hvammsveg og svæðið þar norðan þjóðvegs.

Varðandi ferðir heim úr skólanum þá munu starfsmenn sveitarfélagsins óska eftir hugmyndum frá foreldrum um heppilegar tímasetningar fyrir þær tvær ferðir sem eru fyrir börn heim að afloknum skóla.