Áskorun á bæjarstjóra Ölfuss, Elliða Vignisson

Skammdegisbæjarhátíðin Þollóween verður haldin í fyrsta sinn 29. okt. – 4. nóv. Um er að ræða fjölskylduhátíð þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi þar sem af nóg er að taka í dagskránni sem er hér meðfylgjandi.

Smelltu á myndina til að lesa dagskrá Þollóween í næstu viku.

Þollóween nefndin skorar hér með á bæjarstjóra Ölfuss, Elliða Vignisson, að taka að sér hlutverk Yfirdraugs Þollóween! Það göfuga hlutverk felur í sér að setja Þollóween hátíðina í skelfilegu skrautsmiðjunni, í fullum skrúða, ásamt því að vera sérstakur ráðgjafi graskersútskurðardeildarinnar. Heyrst hefur að Elliði Vignisson sé afbragðs graskersútskurðarmaður og hefur meðal annars unnið til verðlauna fyrir þessa hæfileika sína á alþjóðlegum vettvangi.

Skelfilega skrautsmiðjan verður þriðjudaginn 30. október í Grunnskólanum í Þorlákshöfn á milli kl. 17-19. Þar gefst fjölskyldum tækifæri til að búa til skelfilega ljótt og hræðilegt skraut til þess að búa til réttu stemninguna fyrir Þollóween.

Þollóween nefndin vill líka hvetja alla bæjarbúa til þess að taka fullan þátt í dagskránni og skorar á vinnustaði að vera með í búningagleðinni föstudaginn 2. nóvember, en þá mega börn í leikskólanum og grunnskólanum koma í búningum og ganga svo grikk eða gott um kvöldið. Hugsið ykkur bara hvað það væri gaman ef það væri afturganga í apótekinu, zombí í sjoppunni og blóðug býfluga í bakaríinu!

Við hlökkum til þessarar spennandi viku með ykkur! Fyrir nánari upplýsingar á facebook síðu Þollóween, einnig á instagram undir nafninu Þollóween.

Þollóween nefndin