Elliði tekinn á beinið – annar hluti

Í ágúst kynntum við nýjan lið hjá okkur sem við kölluðum „Nýr bæjarstjóri tekinn á beinið“ þar sem við buðum íbúum að senda inn spurningar til Elliða Vignissonar. Í seinustu viku birtum við fyrstu spurningarnar og hér kemur næsti skammtur.

Hvað æltar Elliði að gera fyrir húsnæðissamvinnufélagið Elliða? Kannski láta sveitarfélagið taka það yfir eins og ósk HSF Elliða hefur verið mörg undanfarin ár 🙂 Þetta var nú á sínum tíma eitt af óskabörnum stjórnvalda hér í bæ.

Húnsæðismál brenna eðlilega á fólki og þá ekki síst þeim sem standa frammi fyrir því að þurfa annaðhvort fyrstu eða seinustu íbúð.  Húsnæðissamvinnufélög sem eðli málsins samkvæmt eru ekki hagnaðardrifin er ein þeirra leiða sem fetuð hefur verið til að auka og auðvelda aðgengi almennings að húsnæði.  Húsnæðisfélagið Elliði gengir stóru hlutverki fyrir okkur hér í Ölfusinu og mikilvægt að við stöndum saman um velferð Elliða.  Hvernig það verður best gert þarf meiri yfirlegu og ríkara samtal en svo að ég geti útfært það með mikilli nákvæmni í svar sem þessu.

Munum við ekki berjast fyrir því að fá Herjólf aftur?

Við höfum aldrei misst Herjólf. Hann kemur hingað reglulega og Þorlákshöfn mun um ókomna tíð gegna stóru hlutverki í samgöngum fyrir Eyjamenn.  Landeyjahöfn er hinsvegar afar kærkomin viðbót fyrir Eyjamenn og skiptir samfélagið þar afar miklu.

Hvaða bjór finnst þér bestur?

Ég byrjaði ekki að drekka áfengi fyrr en ég var 28 ára og var enn seinni til að læra að meta góðan bjór.  Í dag er ég hinsvegar mikill bjórkall og konan mín gerir grín af því að ef ég þyrfti að velja milli bjórs og súrefnis þá myndi ég teyga einn bjór og kafna svo.  Uppáhalds bjórinn minn heitir Punk og kemur frá BrewDog.  Það er ekki endilega besti bjór sem ég hef fengið en hann er dáldið svona „fyrsti kossinn“ fyrir mér.  Ég er líka einlægur aðdáandi Brother Brewery og þykir til að mynda Dirty July sem er New England IPA algert afbragð.  Miklir kappar hér í Þorlákshöfn svo sem Valur ritstjóri Hafnarfrétta og Steinar bæjarfulltrúi segja að ekki séu til fremri bruggarar en þeir.  Enn sem komið er verð ég að trúa þeirra orðum en hlakka mikið til að sjá hvort þeir ætli að styðja fullyrðingar sínar með því að leyfa mér að smakka afurðir sínar.