Frábær seinni hálfleikur skóp fyrsta sigur Þórsara

Þórsarar unnu frábæran sigur á nágrönnum sínum í Grindavík í Icelandic Glacial höllinni í kvöld. Lokatölur urðu 90-80.

Gestirnir byrjuðu leikinn betur og leiddu með 4 stigum í hálfleik. Þórsarar komu heldur betur einbeittir til leiks í síðari hálfleik og var allt hnífjafnt fyrir lokafjórðunginn, 67-67.

Fjórði leikhlutinn var magnaður fyrir Þórsara en þeir skoruðu fyrstu 13 stig leikhlutans og Grindavík réðu ekkert við sjóðheita Þórsarana. Þorlákshafnardrengirnir héldu haus og unnu sannfærandi 10 stiga sigur.

Frábær leikur Þórsara sem eru nú komnir með sinn fyrsta sigur í Domino’s deildinni en þeir áttu einnig flottan leik gegn KR í síðustu umferð þrátt fyrir tap.

Næsti leikur Þórs er gegn Stjörnunni í Garðabæ næstkomandi fimmtudag.