Ótrúlegur sigur Þórsara! – Flautu þristur hjá mögnuðum Tomsick

Þórsarar unnu ótrúlegan sigur á Breiðablik í kvöld 107-110 eftir ævintýralega flautukörfu Nick Tomsick.

Þórsarar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu 57-48 eftir annan leikhluta. Breiðablik komu sterkir til leiks eftir hálfleikinn og söxuðu jafnt og þétt forskot Þórs.

Lokamínúturnar voru síðan taugatrekkjandi fyrir allan peninginn þar sem liðin skiptust á forystu, allt þar til Þórsarar stilla upp í sókn þegar 5 sekúndur lifðu leiks. Nick Tomsick setur magnaða þriggja stiga flautukörfu með tvo menn í sér og niðurstaðan sætur þriggja stiga sigur.

Þórsarar kynntu til leiks nýjan leikmann, Jaka Brodnik, en hann kemur frá Slóveníu. Jaka lofar góðu en hann átti flottan leik í kvöld og skoraði 15 stig og tók 6 fráköst.

Nikolas Tomsick fór á köstum í liði Þórs og skoraði 39 stig og gaf 5 stoðsendingar, Kinu Rochford var flottur með 30 stig, 15 fráköst og 8 stoðsendingar en hann fór út af með 5 villur í fjórða leikhluta. Jaka Brodnik setti 15 stig og tók 6 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 13 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Ragnar Örn Bragason bætti við 11 stigum og tók 5 fráköst og fyrirliðinn Emil Karel Einarsson setti 2.