Þórsarar komnir í 6. sæti eftir frábæran sigur á Val

Nikolas Tomsick átti enn einn stórleikinn! sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þórsarar unnu feiknar sterkan sigur á Valsmönnum fyrr í kvöld í Domino’s deildinni í körfubolta en lokatölur urðu 114-98. Þeir fara því með gott veganesti inn í jólafríið sem hófst formlega eftir sigurinn í kvöld.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en í öðrum og þriðja leikhluta voru Þórsarar mun sterkari og komust í gott forskot fyrir lokafjórðunginn. Valsmenn bitu vel frá sér í fjórða leikhlutanum og Þórsarar fóru að gefa aðeins eftir. Áhlaup gestanna kom of seint fyrir þá og Þórsarar kláruðu leikinn af krafti. Sanngjarn og flottur Þórs sigur að lokum.

Með sigrinum í kvöld fóru Þórsarar í 6. sæti deildarinnar með tíu stig eins og Grindavík sem sitja í 7. sæti.

Nikolas Tomsick var frábær eins og svo oft áður en hann skoraði 35 stig og gaf 10 stoðsendingar. Kinu Rochford var einnig virkilega góður og gerði hann 26 stig og tók 16 fráköst. Jaka Brodnik setti 19 stig, Ragnar Örn 13, Davíð Arnar 8, Emil Karel 6, Halldór Garðar 5 og Styrmir Snær 2 stig.

Næsti leikur Þórs er heimaleikur gegn toppliði Tindastóls sunnudaginn 6. janúar.