Fyrir helgi samþykkti bæjarstjórn Ölfuss að gera breytingu á stjórnsýslu sveitarfélagsins með það að markmiði að skýra ábyrgð og mæta nýjum kröfum hvað stjórnsýslu varðar.
Breytingin snýr fyrst og fremst að þeim hluta stjórnsýslunnar sem snýr að störfum nefnda og ráða, auk breytinga á þeim hluta skipuritsins sem snýr að yfirstjórnendum. Eru þessar breytingar unnar úr tillögum sem RR ráðgjöf ehf. lagði fram í kjölfar stjórnsýsluúttektar sem fyrirtækið vann fyrir sveitarfélagið.
Með nýju skipuriti er starfsemi sveitarfélagsins skipt í fjármála- og stjórnsýslusvið, umhverfis- og framkvæmdasvið og fjölskyldu- og fræðslusvið. Samhliða verða ráðnir sviðsstjórar yfir hverju sviði fyrir sig þó þannig að þar sem flest verkefni á Fjölskyldu- og fræðslusviði eru í dag innan byggðasamlaga verði þar rekstrarstjóri en framkvæmdastjóri Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings veiti þeim stofnunum/verkefnum sem undir það falla áfram faglega forystu.
Bæjarstjórn samþykkti jafnframt að auglýsa starf sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs. Byggingafulltrúi mun sinna stöðu sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs og þær stöður því sameinaðar. Stöðu bæjarritara var jafnframt breytt í stöðu aðalbókara sem jafnframt gegnir stöðu rekstrarstjóra fjölskyldu og fræðslusviðs.
Hægt er að lesa sér nánar til um hið nýja fyrirkomulag með því að smella hér.