Opið bréf til bæjarstjórnar í Sveitafélaginu Ölfusi
Síðasta sumar flutti ég aftur heim í Þorlákshöfn ásamt manni mínum og börnum og það fer einstaklega vel um okkur hér í eldri hluta bæjarins, í elsta húsi gamla þorpsins. Heimabærinn togaði endalaust í mig, enda naflastrengurinn sterkur eftir mjög nærandi uppeldi í frábærum skóla, tónlistarskóla, kórum, lúðrasveitum og svona mætti lengi telja. Endalaus félagsskapur sprottinn upp í kringum tónlist og aðra listsköpun eins og öll þau fjölmörgu leikrit og leikþættir sem við tókum þátt í, í Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Fyrir þetta allt er ég óendanlega þakklát enda var þarna sáð fræjum sem urðu endalaus uppspretta að hamingju og verkefnum sem hafa orðið að ólíkum og skemmtilegum starfsvettvangi.
Síðustu árin hefur orðið meiriháttar skemmtileg þróun hér í Þorlákshöfn sem gaman hefur verið að fylgjast með. Bærinn hefur stækkað og fleiri og fleiri flytja hingað, bæði brottfluttir Þorlákshafnarbúar, sem eru að koma heim aftur, sem og glænýjir Þorlákshafnarbúar, enda hamingjan hér, ekki satt?
En hvernig verður hamingjan til?
Í menningarstefnu, útgefinni af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu árið 2013, segir að ,,fjölbreytt menningarlíf er þáttur í almennri velsæld samfélagsins og stuðlar að jöfnuði. Þátttaka í menningarlífi veitir lífsfyllingu og hvetur til jákvæðra samskipta hópa og kynslóða.”
Eins og flestir Þorlákshafnarbúar vita og nú margir aðrir ótengdir Þorlákshöfn, þá hefur menningarlífið hér verið með ólíkindum blómlegt og er örugglega leitun að öðru eins í samfélögum af svipaðri stærðargráðu. Kórarnir eru sex talsins, við erum með eina öflugustu lúðrasveit landsins auk tveggja skólalúðrasveita. Við erum með mikið af hæfileikaríku myndlistar- og tónlistarfólki, virkilega metnaðarfullt leikfélag og svona mætti lengi telja. Allir þessir hópar skiptast á að setja upp tónleika eða sýningar fyrir utan aðra tónleika eins og á Hendur í höfn, þar sem nær undantekningalaust er fullt út úr dyrum.
Það dásamlegasta við menningu er nefnilega að það er bæði hægt að taka þátt og líka hægt að vera “bara” njótandi, þ.e.a.s. sá/sú sem mætir þegar eitthvað er um að vera. Menningin gefur af sér á svo ólíkan hátt. Getur verið að hamingjan sem er hér sé sprottin að einhverju leiti úr þessu öfluga menningarstarfi?
Þá er líka forvitnilegt að velta fyrir sér hversu margir hafa gert sér ferð sérstaklega til Þorlákshafnar til þess að njóta menningar á einhvern hátt? Hversu margir hafa veitt þessu blómlega menningarlífi í Þorlákshöfn athygli? Hvort ímynd bæjarins sé kannski farin að tengjast frekar menningu og góðum stundum heldur en gömlu ýldu lyktinni sem fólk neyddist til að keyra í gegnum á leiðinni í Herjólf, sem oft var í eina erindið sem það hafði til að koma hingað? Væri kannski hægt að verðleggja þetta í krónum og aurum?
Í fjölmörg ár hefur menningin í Þorlákshöfn haft málsvara, menningarfulltrúa. Málsvara sem hægt er að leita til með ólíkar fyrirspurnir tengdum menningarverkefnum og sú hin sama (ekki verið karl í þessu starfi svo ég viti til) hefur einnig haldið úti metnaðarfullum menningarviðburðum að eigin frumkvæði og að frumkvæði sveitafélagsins, þá oft með dyggri aðstoð frá þessum fyrrtöldu menningarhópum. Menningin hefur líka haft sérstaka nefnd sem vinnur að, með og fyrir menningartengd verkefni.
Nú í kjölfar stjórnsýsluúttektarinnar hefur bæjarstjórn ákveðið, að því er virðist, að þurrka út menningarnefnd. Menningarfulltrúi fyrirfinnst ekki heldur, en í staðin á menningin að heyra undir starf sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs og þar undir forstöðumann þjónustuvers, sem bæði eru ný störf ef ég skil þetta rétt.
Það vakti líka athygli mína að í dag (14.03) birtist auglýsing fyrir starf sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs, sem á væntanlega að bera ábyrgð á menningarmálum, í morgunblaðinu og umsóknarfrestur er þar til á morgun, 15. mars. Auglýsinguna var hvorki að finna á heimasíðu sveitafélagsins undir “störf í boði” né á facebook síðu sveitafélagsins, sem verður að teljast sérkennilegt.
Nú kemur að spurningunni: Hver er stefna núverandi bæjarstjórnar þegar kemur að þessum málaflokki, menningunni?
Því verður ekki neitað að með þessum aðgerðum er verið að stíga mörg skref til baka þegar kemur að því að viðurkenna menningarstarf sem mikilvægan þátt í rekstri sveitafélagsins. Svo ég vitni aftur í menningarstefnu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins þá segir:
,,Enginn vafi leikur á því að landsmenn eru bæði áhugasamir um að njóta fjölbreyttrar menningar og um að standa fyrir margs konar menningarverkefnum. Þennan áhuga ber að efla og styrkja og víst er að þar gegna stjórnvöld stóru hlutverki. Möguleikarnir eru fyrir hendi því að öflugt og fjölbreytt menningarlíf elur af sér virkari sköpun í atvinnulífi, vísindum og nýsköpun og eykur lífsánægju landsmanna.”
Að þessu sögðu óska ég eftir skýrum svörum um stefnu bæjarstjórnar í þessum málaflokki um leið og ég hvet ykkur til dáða í þessum efnum. Lengi má gott batna en til þess að svo megi verða þarf jarðvegurinn að vera frjór og næringarríkur.
Með vinsemd,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir,
Íbúi í Þorlákshöfn og menningarsinni.