Tæplega 32 milljónir í uppbyggingu í Reykjadal

Reykjadalur í Ölfusi.

Sveitarfélagið Ölfus hefur fengið samþykktan styrk að upphæð 31.750.500 króna til framkvæmda við sjöunda áfanga í endurbótum í Reykjadal í Ölfusi. „Þar með talið endurbætur á malarstígum, trépöllum og aðstöðu við heita lækinn fyrir gesti,“ segir í nýjustu fundargerð bæjarráðs Ölfuss.

Styrkurinn kemur úr Framkvæmdassjóði ferðamannastaða en honum er einnnig ætlað að verja í bættar merkingar með upplýsingum um hættur í Reykjadal og til að afmarka þau svæði sem ekki má fara inn á. Þá á einnig að nýta styrkinn í að gera nýja brú yfir Hengladalaá við upphaf ferðar inn í dalinn.

„Bæjarráð fagnar þessum áfanga í áframhaldandi uppbyggingu Reykjadals í Ölfusi og felur bæjarstjóra framgang erindisins,“ segir í bókuninni og óskar bæjarráð eftir því að skipulags- bygginga- og umhverfisnefnd hefji nú þegar undirbúning að því að deiliskipuleggja bílastæði og aðra þjónustu fyrir gesti Reykjadalsins.