Hamingjan er innra með og allt um kring

Grétar Ingi Erlendsson

Í gærkvöldi birtist grein á vef Hafnarfrétta, þar sem menningarmál sveitarfélagsins voru reifuð, með yfirskriftinni Hvernig verður hamingjan til?

Það er mikið fagnaðarefni að íbúar sýni áhuga á málefnum sveitarfélagsins hvort sem um ræðir menningarmál eða önnur málefni. Við, íbúarnir sem búum í okkar dásamlega samfélagi, berum heilmikla ábyrgð á hvernig þróun þess verður. Við sköpum hamingjuna sem hér ríkir og við sjáum um að viðhalda henni til frambúðar. Hlutverk kjörinna fulltrúa er einungis að framfylgja þeim áherslum sem settar eru fram af íbúum. Það er hins vegar ekki alltaf einfalt þar sem að í okkar samfélagi, eins og öðrum, býr fjöldi fólks sem allt hefur ólíkar skoðanir. Við reynum þó alltaf að gera okkar allra besta. Öll viljum við jú að samfélagið okkar haldi áfram að vaxa og dafna.

Það er eðlilegt að fólk staldri við og spyrji spurninga þegar farið er í jafn viðamiklar breytingar eins og nú eru fyrirhugaðar hjá sveitarfélaginu. Það er ekki bara eðlilegt, það er nauðsynlegt. Við sem erum kjörin til að taka ákvarðanir verðum að heyra hvernig takturinn er í samfélaginu því þannig eru bestu ákvarðanirnar teknar.

Það er gott að heyra að fólk tengi Þorlákshöfn og Ölfusið við menningu. Við erum ákaflega stolt af því öfluga menningarstarfi sem hér fer fram og stefnan er sett á að gera enn betur. Þær breytingar sem nú eru í vændum eru einmitt liður í því. Menningarmál fá nú meira vægi en áður. Nýtt starf forstöðumanns Þjónustu- og menningarvers mun sjá til þess að menningarmál fái byr undir báða vængi. Auk þess mun viðkomandi starfsmaður njóta stuðnings Sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs. Enn fremur verða málaflokkurinn færður undir Bæjarráð sem óneitanlega styttir boðleiðir, leiðir til skilvirkari ákvarðanatöku og eykur tengingu málaflokksins við Bæjarstjórn, enda sitja þrír bæjarfulltrúar í bæjarráði. Til að styðja enn betur við menningarstarf mun Bæjarstjórn einnig kalla eftir öflugu samráði við íbúa því þannig fáum við enn fleiri að borðinu. Því er ekki með nokkru móti verið að stíga skref til baka. Því síður. Ég er sannfærður um að þessar breytingar muni auka hróður menningar hér enn frekar og áframhald verði á þeirri mögnuðu uppbyggingu sem hér hefur átt sér stað.

Seinni umræða um hið nýja skipulag hefur ekki farið fram í Bæjarstjórn og hefur því ekki hlotið formlegt gildi. Þrátt fyrir það hefur verið skipaður starfshópur sem hefur það hlutverk að yfirfara og breyta samþykktum sveitarfélagsins. Starfshópur þessi er þverpólitískur og mun væntanlega hefja störf þegar endanleg ákvörðun liggur fyrir. Unnið er því eftir gildandi menningarstefnu sem finna má hér. Skýrari svör um stefnu sveitarfélagsins í þessum efnum er því miður ekki hægt að veita þar sem að vinnan er enn í fullum gangi.

Hvað varðar auglýsinguna um starf Sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs þá þakka ég kærlega fyrir ábendinguna. Það er klárlega stefna sveitarfélagsins að birta allar auglýsingar á vef sveitarfélagsins og í bæjarmiðlum. Af einhverjum sökum hefur það misfarist í þetta skiptið en höfum við nú þegar komið skilaboðum áleiðis um að lengja umsóknarfrest og koma auglýsingunni í birtingu í bæjarmiðlum og á vef sveitarfélagsins. Vill ég fyrir hönd Bæjarstjórnar biðjast velvirðingar á þessum leiðu mistökum.

Með vinsemd og virðingu
Grétar Ingi Erlendsson
Formaður Markaðs- og menningarnefndar.