,,Sá sem missir af þessum tónleikum er fáviti!”

Lúðrasveit Þorlákshafnar æfir stíft þessa dagana enda styttist í Brassrokk, vortónleikana sem verða tvennir að þessu sinni, í Seljakirkju 10. apríl kl. 20 og í Íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn laugardaginn 13. apríl kl. 17.

Eins og nafnið gefur til kynna er þema tónleikanna rokktónlist og það verða engar smá kanónur sem koma fram með lúðrasveitinni, en það eru þeir Þráinn Baldvinsson gítarleikari Skálmaldar og stórsöngvarinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson.

Sá síðarnefndi æfði með lúðrasveitinni síðasta fimmtudagskvöld og var stemningin ekkert minna en frábær og meira að segja sjórnandinn, sem lætur nú yfirleitt ekki út úr sér vanhugsuð orð sagði ákveðið eftir að Eyþór söng Queen slagarann Show must go on: ,,Sá sem missir af þessum tónleikum er fáviti!”

Svo skilaboð Lúðrasveitar Þorlákshafnar eru eins og þeir segja á rokkhátíðinni Eistnaflugi: Ekki vera fávitar og komið og sjáið lúðrasveitina ykkar eins og hún hefur aldrei verið áður!

Miðasalan er á midi.is og á Kompunni, hársnyrtistofu.