Stórátak í þjónustu við eldri borgara í Ölfusi

– Framkvæmt til framtíðar

Sem betur fer eru lífslíkur fólks að aukast hratt og fólk almennt að ná hærri aldri en nokkurri sinni í sögu mannkynsins. Þessi kærkomna fjölgun í elsta aldurshópnum leggur nýjar og auknar skyldur á kjörna fulltrúa hvað varðar þjónustu og ekki hvað síst á aukin úrræði í búsetu- og umönnunarmálum aldraðra. Á seinustu árum hefur lítið verið framkvæmt í okkar góða sveitarfélagi með það fyrir augum að bæta þjónustu við eldri borgara. Í aðdraganda kosninga hétu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins því að þar yrði breyting á ef þeir fengju til þess umboð kjósenda. Sérstök alúð yrði lögð á málaflokkinn með áherslu á samstarf við eldri borgara og sjónum yrði einkum beint að húsnæðismálum. Nú er komið að því að standa við þau orð.

Ólíkar áherslur
Þótt oftast sé sátt og samlyndi við stjórn bæjarfélagsins þá gerist það stundum að fólki greinir á um leiðir að markmiðum. Oftast er hægt að tala sig niður á sameiginlegan skilning. Stundum gerist það þó að besta niðurstaðan er að verða sammála um að vera ósammála. Í málefnum aldraðra ríkir einhugur meðal bæjarfulltrúa hvað varðar viljan til bæta stöðuna. Slíkur vilji var einnig hjá fyrri bæjarstjórn. Sú hugmynd sem hún kynnti rétt fyrir kosningar var þó ekki í þeim anda sem núverandi meirihluti taldi æskilegan. Þess vegna hefur nú verið gerð breyting á áætlunum um uppbyggingu og framkvæmdir í málaflokknum.

Unnið í ríku samstarfi við Öldungaráð
Sú hugmynd sem meirihluti Sjálfstæðismanna hefur nú kynnt og hrint af stað í bæjarstjórn er heildstæð nálgun á þjónustu við aldraða með aðaláherslu á húsnæðismál. Hún byggir að stóru leyti á frumkvæði öldungaráðs og hefur verið útfærð í nánu samstarfi við ráðið. Það er gert til að tryggja að samráð sé með formlegum hætti enda öldungaráð einn mikilvægasti samstarfsvettvangur hvað varðar þjónustu við eldri borgara.

Nýr deildastjóri og heildræn stefnumótun
Sem fyrr segir er löngu tímabært að hefja úrbætur í málefnum aldraðra í Ölfusi og skerpa áherslur í þjónustu. Á fyrstu vikum ársins auglýsti sveitarfélagið því eftir deildastjóra í málefnum aldraðra. Varð sú staða til út úr stöðu forstöðumanns þjónustumiðstöðvar aldraðra. Að afloknu umsóknarferli var Ásrún Jónsdóttir ráðin í starfið og hefur hún störf núna í byrjun apríl. Ásrún er með mikla reynslu af stjórnun og þekkingu á uppbyggingu velferðarþjónustu. Hlutverk hennar sem deildarstjóra verður ekki hvað síst að leiða stefnumótun og áframhaldandi uppbyggingu í málaflokknum.

Húsnæðismál, nýjar leiguíbúðir strax á næsta ári
Í viðbót við löngu tímabæra heildstæða stefnumótun í málaflokknum leggur Sjálfstæðisflokkurinn nú í upphafi kjörtímabilsins höfuðáherslu á húsnæðismál aldraðra. Þannig hefur nú verið kynnt áætlun um byggingu á allt að 24 hagkvæmum, 50 m2, leiguíbúðum og ætti fyrsti áfangi, 5 viðbótar leiguíbúðir, að geta verið komin í framkvæmd eigi síðar en seinni hluta þessa árs og þær í notkun á næsta ári. Byggingin er á einni hæð með góðu aðgengi að þeirri þjónustu sem veitt er að Egilsbraut 9. Íbúðirnar eru bjartar og fallegar tveggja herbergja íbúðir, rétt tæplega 50m2 og svipar að mörgu leiti til núverandi leiguíbúða í sama fjölbýlishúsi. Því til viðbótar er stefnt að því að skipuleggja nýjar lóðir fyrir allt að 8 parhús við Sunnubraut þar sem heimilt verður að byggja séreignaríbúðir fyrir aldraða og mun sveitarfélagið leita leiða til að tryggja hagkvæmni slíkra bygginga og hagsmuni eldri borgara hvað slík kaup varðar.

Endurbætur á dagdvöl
Samtöl við eldri borgara og starfsfólk sveitarfélagsins hefa einnig leitt í ljós ýmsa möguleika til að efla enn þjónustu að Egilsbraut 9. Þannig verður á næstu dögum skoðað sérstaklega að stórbæta þjónustu dagdvalar og flytja hana í miðrými hússins með tilheyrandi framkvæmdum. Samhliða verður skoðað hvernig bæta megi umhverfi og þjónustu tengda námskeiðahaldi fyrir aldraða, félagsstarfi þeirra, handverksvinnu og fleira.

Hjúkrunarheimili
Með hækkandi aldri eykst eðlilega þörfin á hjúkrunarrými. Í samræmi við áherslur öldungaráðs hefur bæjarstjórn því tekið ákvörðun um að kalla eftir því að ríkið komi að byggingu hjúkrunarheimilis hér í sveitarfélaginu.

Augun af baksýnisspeglinum og byggt upp til framtíðar
Í stað þess að stara í baksýnisspegilinn og velta sér upp úr smáatriðum um hver ætlaði að gera hvað, hvenær hafa Sjálfstæðismenn í Ölfusi tekið ákvörðun um að hrinda þessum góðum verkum í framkvæmd. Núverandi bæjarstjórn hefur öll, óháð flokkslitum, einlægan vilja til að bæta mjög stöðuna í málefnum eldri borgara í góðu samstarfi við þá sjálfa og að forskrift þeirra. Við Sjálfstæðismenn trúum því af einlægni að hamingjan búi hér og með samstilltu átaki getum við tryggt að það eigi við alla aldurshópa í okkar góða samfélagi.

Gestur Þór Kristjánsson
Rakel Sveinsdóttir
Grétar Ingi Erlendsson
Steinar Lúðvíksson